Múlaþing vill einnig loka Skápnum fyrir togveiðum

Sveitarstjórn Múlaþings tekur undir það sjónarmið heimstjórnar Borgarfjarðar eystri að loka beri hafsvæðinu sem gengur undir nafninu Skápurinn fyrir togveiðum.

Eins og fram hefur komið í fréttum er Skápurinn eitt af örfáum hafsvæðum við landið þar sem hægt er að stunda togveiðar innan 12 mílna markanna. Raunar er hægt að stunda þessar veiðar þar allt að 6 mílna mörkunum.

Heimastjórn Borgarfjarðar eystri setti nýlega fram kröfu þess efnis að Skápnum yrði lokað fyrir togveiðum því þær væru verulega íþyngjandi fyrir smábátaútgerð frá Borgarfirði eystri,

Í frétt Austurfréttar um málið segir m.a. um afleiðingar togveiða í Skápnum að...„Þetta hefur haft í för með sér að á hverju hausti koma togarar og veiða á heimamiðum Borgfirðinga með þeim afleiðingum að heimasmábátar þurfa róa allt að 40 sjómílur til að eiga von á afla. Þetta er eina slíka svæðið á landinu sem er svo nálægt sjávarþorpi. Þetta ástand er ógn við kjarnaatvinnugrein brothættrar byggðar.“

Á fundi sveitar Múlaþings í vikunni var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:

„Sveitarstjórn Múlaþings tekur undir þær athugasemdir er fram koma í bókun heimastjórnar Borgafjarðar varðandi þau neikvæðu áhrif er núverandi fyrirkomulag hefur á smábátaútgerð á Borgarfirði.

Sveitarstjórn Múlaþings skorar á löggjafann að endurskoða lög um Fiskveiðilandhelgi Íslands....í samræmi við tillögu Heimastjórnar Borgarfjarðar og felur sveitarstjóra og forseta sveitarstjórnar í samráði við formann heimastjórnar Borgarfjarðar að fylgja málinu eftir.

Forseta sveitarstjórnar er jafnframt falið að kynna málið fyrir stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.