Mikilvægt að fara á kjörstað

Forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og formaður sameiningarnefndar Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps telur almennan stuðning í sveitarfélögunum fyrir sameiningu. Kosið verður um hana á morgun.

„Allar kosningar eru hátíðlegar í eðli sínu því þá erum við að fagna lýðræðinu og ákvörðunarrétti fólksins um sín eigin mál,“ segir Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð.

Hann telur almennan stuðning við sameiningaráformin, sérstaklega eftir þá kynningarfundi sem hafa farið fram í öllum byggðarkjörnum sveitarfélaganna tveggja.

„Það hefur verið ákveðin sveifla hjá þeim sem höfðu efasemdir og komu með þær á þessa fundi, því þegar fólk hefur svörin fyrir framan sig þá er það nú almennt mat manna að ávinningurinn er meiri heldur en þær skuldbindingar sem fólk taldi fylgja þessu með tilheyrandi kostnaði,“ bætir Jón Björn við.

Hagstæðar upphæðir sem fylgja

Nefnir hann í því sambandi að einhverjir innan Fjarðabyggðar hafi til að mynda viðrað áhyggjur af fjárhagsstöðu Breiðdalshrepps, en í raun sé staðan sú að Breiðdalshreppur standi betur innan reikningslíkansins heldur en Fjarðabyggð.

„Það er auðvitað alltaf hægt að gera sér mat úr tölulegum upplýsingum og benda á krónutölur með einhverjum áhyggjusvip. En staðreyndin er sú að þær upphæðir sem fylgja frá ríkinu ef að sameiningunni verður eru, vegna regluverks sem er almennt og gildir fyrir allar sameiningar, mjög hagstæðar fyrir bæði sveitarfélögin.“

Í því samhengi er vísað til þess að margar sameiningarviðræður hafa runnið út í sandinn því að fjármagn hafi ekki fylgt til að sinna lögboðnum verkefnum en í þessu tilfelli fylgi í raun skuldajöfnun sem nemur um 90.000 kr. framlagi ríkisins til verkefnisins á hvern íbúa í Fjarðabyggð.

„Það er því umtalsvert fjármagn sem fylgir hverri fjölskyldu, ef við viljum líta á þetta í því samhengi að þarna sé tækifæri fyrir íbúanna til að leggja enn frekar til samfélagsins en við gerum nú þegar með útsvarinu okkar. Við ættum að geta verið stolt af því hvert og eitt að leggja þannig til samfélagsins svo að segja með einu pennastriki við já-ið á kjördag,“ segir Jón Björn.

Mannlegi þátturinn skiptir mestu

Hann segir mikla og góða vinnu hafa verið unna af hálfu samninganefndanna og að sveitarstjórn Breiðdalshrepps megi vera stolt af þeim viðsnúningi sem þar hafi orðið á síðustu árum. Reksturinn þar hafi gengið mjög vel og sé lykillinn að þessari hagfelldu útkomu, sem verði þó ekki endanlega ljós fyrr en fjármagnsárið 2017 verður gert upp.

„Það verður jú einhver lækkun í framhaldinu af því framlagi sem nýtt sveitarfélag fengi úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en regluverkið felur í sér að sú skerðing kemur ekki til fyrr en eftir fimm ár.

Þannig að þarna inni eru allar lykiltölurnar; framlög til beggja sveitarfélaganna vegna skuldajöfnunar, framlag til að sinna verkefnum í nauðsynlegri innviðauppbyggingu til að staðirnir standi jafnfætis hvað varðar hafnarmannvirki, gatna og fráveitumál, og svo óskert framlag úr jöfnunarsjóði næstu fimm ár.

Aukin samvinna og samkennd er auðvitað aðalatriðið í svona sameiningarferli, mannlegi þátturinn. En tækifæri samfélaganna til uppbyggingar felast líka í að efnahagslegi þátturinn sé ásættanlegur fyrir alla aðila. Breiðdælingar ættu ekki að tapa of stórt á því að hafa okkur í Fjarðabyggð með, svona til lengri tíma litið, ef við horfum á málið frá þeirri hlið.“

Úr umfjöllun Austurlands um kosningar um sameiningu Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps, birt með leyfi ritstjóra Austurlands, Arnaldar Mána Finnssonar


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.