Mikill styrkur í menningarlegu tilliti

Dýrunn Pála Skaftadóttir, formaður menningar- og safnanefndar Fjarðabyggðar, telur að ef sameiningu Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps verði eftir morgundaginn verði það jákvæð viðbót við þá fjölbreyttu flóru sem Fjarðabyggð hefur uppá að bjóða í menningarlegu tilliti.

„Það er mikil jákvæðni og bjartsýni gagnvart þessari sameiningu á Suðurfjörðunum og flestir hér sunnan gangna telja að þetta þétti byggðirnar og flæðið á milli staðanna. Félagsstarfið innan skólans og starfsemi félagsmiðstöðvanna mun klárlega eflast og miðjan í sveitarfélaginu verður aðeins stærri. Það getur bara verið jákvætt fyrir okkur öll,“ segir Dýrunn.

Hún segir ríka áhersla vera á þátt menningar, vísinda og ferðaþjónustu í Breiðdalsvík. Má í því sambandi nefna jarðfræði svæðisins, en þar eru menning og vísindi nýir vaxtarbroddar. Hið sama gildi um þátt sögu, málvísinda og menningartengda ferðaþjónustu.

„Það er alveg ótrúlega margt sem er í boði og bætist við þá flóru sem Fjarðabyggð getur boðið uppá. Þó að íbúafjöldinn segi til um að þarna bætist ekki margir íbúar við, þá er þarna menningarleg viðbót í mörgum hlutum eins og Jarðfræðisetrinu og Frystihúsinu sem tengist bæði hótelinu og brugghúsinu. Þar fara fram menningarlegir viðburðir fara og öflug fyrirtæki í matvælaframleiðslu sem byggja á öflugu einstaklingsframtaki.

Það má ekki gleymast í öllu tali um opinberar stofnanir og þjónustuskyldur sveitarfélaga að það er alltaf mikill akkur að því að fá öfluga einstaklinga til að vinna í þágu heildarinnar.

Við í Fjarðabyggð munum örugglega njóta mikils góðs af því frumkvæði og krafti sem býr í bæjarfélaginu og eins mun Breiðdalshreppur vonandi njóta góðs af sterkum innviðum og vel mótuðu og faglegu starfi í öflugu sveitarfélagi eins og Fjarðabyggð er fyrir.“

Úr umfjöllun Austurlands um kosningar um sameiningu Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps, birt með leyfi ritstjóra Austurlands, Arnaldar Mána Finnssonar


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.