Meiri fjölbreytni þarf í tungumálakennslu

Kennari við Menntaskólann á Egilsstöðum segir þörf á aukinni fjölbreytni í tungumálakennslu í framhaldsskólum. Ástæða sé til að skoða málin þar sem færri nemendur velji erlend tungumál en áður.

„Ofuráhersla er á málfræðikennslu, en mín skoðun er að fjölbreytt sögu- og menningartengd kennsla ætti að vera mun fyrirferðarmeiri en raun ber vitni.

Þannig tækju nemendur mögulega meira inn af fróðleik um land og þjóð og sæju í leiðinni fleiri tækifæri til að nota málið,“ segir Katrín Högnadóttir, þýskukennari við ME, í nýjasta hefti Skólavörðunnar, tímarits Kennarasambands Íslands en þar er fjallað um stöðu tungumálakennslu í framhaldsskólum.

Nemendur læra ensku og dönsku í grunnskólum en þurfa að velja eitt erlent tungumál í viðbót, sem talað er um sem þriðja málið, í framhaldsskólum. Algengt er að nemendur geti valið um frönsku, spænsku eða þýsku og verður síðastnefnda málið oft fyrir valinu vegna skyldleika þess við fyrri mál sem nemendur hafa lært.

Í viðtalinu bendir Katrín á að færri nemendur læri erlend tungumál en áður og því sé rétt að staldra við og ræða hvort tungumálakennslan sé a´réttri leið.

Einnig kemur fram í máli hennar að stytting náms til stúdentsprófs þýði að efri áfangar erlendra tungumála hafi víða dottið út. „Áður höfðu nemendur náð ákveðinni hæfni þegar þeir tóku þessa áfanga og gátu því kafað dýpra og á annan hátt ofan í fagið.“

Bætt tækni hefur líka áhrif. „Við erum orðin svo vön að geta bara flett upp því sem þarf og látið Google Translate þýða það sem þarf, á því tungumáli sem þörf er á hverju sinni. Mögulega hefur þetta orðið til þess að nemendur velja ekki tungumálanám, þar sem síminn færir okkur jú það sem bið biðjum hann um. Hví þá að leggja á sig alla vinnuna sem fylgir því að læra nýtt tungumál.“

En þrátt fyrir aukna tækni minnkar er tungumálakunnátta mikilvæg sem fyrr. „Sama hver ástæðan er fyrir að færri velja tungumálanám nú en áður, þá finnst mér staða tungumálanáms áhyggjuefni. Vegna þess að tungumálin verða okkur nefnilega alltaf lyklar að umheiminum og öllum möguleikunum sem hann býður upp á.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.