Með ólíkindum að fulltrúi ráðherra hafi neitunarvald um skipulag strandsvæða

Allir átta bæjar- og sveitarstjórar á Austurlandi og fjórir af Vestfjörðum hafa sent umhverfis- og auðlindaráðherra bréf þar sem mótmælt er harðlega frumvarpi að nýju hag- og strandsvæðaskipulagi. Þeir telja að um alvarlega aðför sé að ræða að sjálfræði sveitarfélaganna og forræði þeirra í skipulagsmálum.


Gagnrýnin snýr að möguleika sveitarfélaganna til að skipuleggja eigið svæði. Samkvæmt núgildandi lögum hafa þau skipulagsvald 115 metra út í sjó. Það telja þau hins vegar of stutt miða við vaxandi umsvif á strandsvæðum, svo sem vegna fiskeldis og siglinga farþegaskipa.

Staðan er sú að sveitarfélögin hafa einungis umsagnarrétt en ekki ákvörðunarvald yfir hvar til dæmis í fjörðum fiskeldisfyrirtæki setja niður kvíar sínar. „Verði strandsvæðin slitin úr samhengi við skipulagsáætlanir sveitarfélaga, getur það haft í för með sér óhagræði og árekstra ólíkra hagsmuna.“

Þá benda sveitarfélögin á að skipulag strandsvæða þurfi að fara saman við skipulagsvald í landi.

Valdið úr höndum heimamanna

Sveitarfélögin hafa einnig áhyggjur af að skipulag strandsvæðanna verði í höndum svokallaðra svæðisráða sem í sitja allt að sjö einstaklingar, skipaðir af ráðherra.

Ráðherrar sjávarútvegsmála, samgöngumála og orku- og ferðamála tilnefna einn fulltrúa hvern í ráðið auk fulltrúa umhverfis- og auðlindamála sem skipar formann. Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir einn fulltrúa og aðliggjandi sveitarfélög einn. Séu þau fleiri en þrjú fá þau annan fulltrúa.

Til afgreiðslu í ráði dugir einfaldur meirihluti, með því skilyrði að fulltrúar allra ráðuneytanna séu sammála. Hver og einn ráðherra er þar með kominn með neitunarvald inn í ráðið. Í bréfinu er sagt að með „ólíkindum“ sé að ráðherrafulltrúar hafi slíkt vald.

Í bréfi sveitarstjóranna er bent á að þessi tilhögun öll gangi þvert á lýðræðislegan grunn skipulagslaga og þá meginreglu að efla skulið staðbundið vald og ákvarðanatöku með tilliti til almannahagsmuna og skynsamrar meðferðar opinberra fjármuna.

Sveitarstjórarnir kalla eftir samtali við umhverfis- og auðlindaráðherra um málið og frumvarpið. Eins vilja þeir að hafin verði vinna við nýtingaráætlanir einstakra strandsvæð, þar sem hagsmunaðilar fái að koma að borðinu, hvernig sem frumvarpinu reiði af. Þar þurfi sveitarfélögin að vera leiðandi afl, enda geta hagsmunir þeirra staðið og fallið með því sem gerist á fjörðunum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.