„Leitum allra leiða til að taka þátt í skynsömu verkefni“

Ráðherra samgöngumála hefur falið Vegagerðinni að skoða hvort hægt sé að bæta veginn um Njarðvíkurskriður í sumar samhliða því sem farið verður í aðrar framkvæmdir á svæðinu. Ráðherrann voru í dag afhentir undirskriftalistar með nöfnum ríflega 2500 einstaklinga sem fara fram á að vegurinn til Borgarfjarðar verði bættur hið fyrsta.

„Við meðtökum þessi skilaboð, við höfðum tekið eftir framtaki þessara ungu Borgfirðinga og eins hafði oddvitinn (Jakob Sigurðsson) komið í ráðuneytið til að fara yfir þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru í sumar,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnaráðherra.

Í sumar stendur til að leggja ljósleiðara og þriggja fasa rafmagn um skriðurnar yfir á bæina í Njarðvík. Bent hefur verið á að æskilegt sé að fara í úrbætur á veginum um leið til að forðast tvíverknað. Undir það tekur Sigurður Ingi.

„Ég hef lýst þeirri skoðun minni að það sé skynsamlegt að fara í veginn ef hægt er að finna fjármagn á þessu ári og bað Vegagerðina um að skoða það eftir fund minn við oddvitanum. Ef við eigum einhverja möguleika á að taka þátt í svona skynsömu verkefni munum við leita allra leiða til þess.“

Sigurður Ingi segir að áskoranirnar verði hafðar í huga þegar ný samgönguáætlun verður lögð fram á Alþingi í haust. „Það er staðreynd að Borgarfjörður eystra er sennilega síðasta byggðarlagið með yfir 100 íbúa sem ekki er með bundið slitlag. Það hlýtur að telja inn í forgangsröðunina við gerð áætlunarinnar.“

Þegar Sigurður Ingi tók á móti undirskriftalistanum frá þeim Eyþóri Stefánssyni, Óttari Kárasyni og Steinunni Káradóttur í ráðuneytinu í dag sagði hann frá því að aðstoðarmaður hans, Ingveldur Sæmundsdóttir, hefði farið veginn í sumar og deilt reynslu sinni. „Hún fór á Bræðsluna í sumar, lenti í veginum í þessum miklu rigningum og hefur lýst honum fyrir mér.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.