Jólaland þar sem áður var hárgreiðslustofa

Fyrrum húsnæði hárgreiðslustofunnar Exító í verslunarmiðstöðinni Molanum í Reyðarfirði tekur á sig mynd jólalands þar sem tónlistarmenn flytja jólalög um helgina. Forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar segir að þörf hafi verið á að finna nýjar leiðir til að flytja lifandi tónlist á tímum samkomubanns.

„Það var kominn tími til að gera eitthvað en við þurftum að finna leið til að koma tónlistinni til fólksins. Fyrst það er ekki hægt eftir hefðbundnum leiðum þurfum við að finna aðrar,“ segir Jóhann Ágúst Jóhansson, forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar.

Litlu-Jólin í Fjarðabyggð verða haldin á hennar vegum um helgina. Þungamiðjan þar verður í Molanum á Reyðarfirði þar sem tónlistarfólk mun seinni partinn á morgun og laugardag koma sér fyrir í rýminu sem áður hýsti hárgreiðslustofuna og flytja jólalög.

Vegna samkomutakmarkana geta gestir ekki komið inn í rýmið sjálft, en hægt verður að sjá tónlistarfólkið inn um glugga og á göngum Molans verður komið fyrir hátölurum. Þá munu börn fædd 2015 og síðar geta kíkt inn í jólalandið.

Fleira verður hins vegar í gangi. Milli klukkan 10 og 12 á laugardag mun Skógræktarfélag Reyðarfjarðar hefja árlega jólatréssölu sína við Stríðsárasafnið. Þar verður líka ratleikur og jólasveinar kíkja í heimsókn.

„Við sendum skeyti upp á fjöll og þeir svöruðu kallinu,“ segir Jóhann sem bætir því við að sveinarnir séu vel meðvitaðir um þær sóttvarnir sem gildi í mannheimum. „Þeir hafa fengið veður af þeim og taka þær mjög alvarlega. Mér skilst að þeir ætli að redda sér rauðum andlitsgrímum.“

Dagskránni lýkur svo klukkan átta á laugardagskvöld þegar Kvikmyndaklúbbur Austurlands sýnir myndina Love Actually! í bílabíói á Eskifirði.

„Við byrjuðum á að velta fyrir okkur hvað væri hægt að gera í Covid því eins og stendur er ekki margt í boði. Við vissum af þessu plássi í Molanum, svo heyrðum við í Skógræktarfélaginu og Kvikmyndafélaginu, fengum til liðs við okkur tónlistarfólk og allt í einu vorum við komin með heilmikla dagskrá,“ segir Jóhann.

Til viðbótar við þetta hefur Menningarstofan að undanförnu staðið fyrir jólasmásagnakeppni meðal grunnskólabarna í Fjarðabyggð. Jóhann segir þátttökuna hafa verið frábær, um 60 sögur hafi borist og framundan sé erfitt val dómnefndar við að velja þær bestu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.