Íbúar í Breiðabliki hafa áhyggjur af myglu

Íbúar í Breiðabliki, íbúðum aldraðra í Neskaupstað, hafa áhyggjur af myglu í húsinu. Föndursalur í húsinu var lokaður af eftir að starfsfólk fann fyrir óþægindum þar. Bæjaryfirvöld undirbúa heildarúttekt á húsinu.

Sveinn Árnason, einn þeirra sem býr í Breiðabliki, segir íbúa þar hafa árum saman haft áhyggjur af raka og myglu í húsinu, einkum í tengibyggingar milli íbúðanna og sjúkrahússins í Neskaupstað sem og í elsta hlutanum. Bæði er þar að finna leka en einnig vanti loftræstingu.

Sveinn segir íbúa hafa þrýst á að úttekt yrði gerð á húsnæðinu en það ekki verið gert enn. Hann segir þá hafa áhyggjur af ástandinu sem setji bæði íbúa og starfsfólk í hættu. Undir þessar áhyggjur hafi læknir sem komið hafi í húsið fyrir nokkru síðar tekið og sent sveitarfélaginu erindi.

Síðasta föstudag var hluta Nesskóla lokað eftir að þar fannst tegund myglu sem ekki er talið óhætt að fólk sé innan um. Viðgerðir eru hafnar á skólanum. Sveinn segir þær fréttir hafa vakið spurningar um hvers vegna væri ekki brugðist jafn skjótt við í Breiðabliki.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir framkvæmdasvið sveitarfélagsins vera að undirbúa allsherjar úttekt á ástandi hússins. Kveikjan að því var þegar föndursalur hússins var tekinn úr notkun fyrir skemmstu og lokaður af eftir að starfsfólk kvartaði undan óþægindum. Þar fannst raki við glugga.

Nokkur ár eru síðan Breiðablik var málað að utan. Jón Björn segir að þá hafi kápa hússins verið skoðuð og þá ekki talin hætta á að hún læki. Nú sjást hins vegar meðal annars merki um raka út frá svölum á neðri hæð og ljóst að skoða þurfi málin.

Búið er að óska eftir að verkfræðistofan Efla taki myglusýni, bæði úr salnum og víðar. Sérfræðingar hennar hafa hins vegar verið bundnir í öðrum verkefnum.

„Það er ljóst að við þurfum að ráðast í lagfæringar. Eftir að þetta með föndursalinn kom upp var ljóst að við þyrftum að ráðast í heildstæða úttekt og gera áætlun um endurbætur á húsinu. Það er verið að fara þetta. Við munum síðan kynna málið fyrir íbúum um þegar við höfum meira í höndunum,“ segir Jón Björn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.