Hvetur Landsbankann til að standa að „alvöru bankaþjónustu“ á Stöðvarfirði

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar vill að forsvarsmenn Landsbankans endurskoði þá ákvörðun að hætta hraðbankaþjónustu á Stöðvarfirði. Farið er fram á að bankinn standi við eldri fyrirheit um bankaþjónustu á staðnum.


Þetta kemur fram í bréfi sem bæjarstjórinn Páll Björgvin Guðmundsson skrifaði forsvarsmönnum bankans nýverið. Bankinn samdi í vor við verslunina og veitingastaðinn Brekkuna um að afgreiða reiðufé á Stöðvarfirði. Þáverandi hraðbanki var úr sér genginn og forsvarsmenn bankans sögðu notkunina hafa verið það litla að vart tæki því að setja annan upp.

Bæði bæjarstjórn og íbúar Stöðvarfjarðar hafa mótmælt þessum breytingum harðlega en íbúarnir skiluðu nýverið inn undirskriftalistum þar sem skorað er á bankann að endurskoða ákvörðun sína. Bréf bæjarstjórans er á sömu nótum.

Bæjarstjórinn telur upp fjögur megin rök fyrir því að bankinn sinni áfram hraðbankaþjónustu á Stöðvarfirði.

Í fyrsta lagi hafi bankinn ávallt við lokun útibúa í Fjarðabyggð, sem fækkað hefur úr fimm í tvö á síðustu árum, heitið því að bankaþjónusta, þar með talin hraðbankaþjónusta, verði áfram í boði á staðnum. Farið er fram á að Landsbankinn standi við þau fyrirheit.

Í öðru lagi sé full þörf á hraðbankaþjónustu á Stöðvarfirði utan afgreiðslutíma Brekkunnar þar sem staðurinn hafi verið skilgreint sem anddyri Fjarðabyggðar og taki á móti tug þúsundum ferðamanna. „Afgreiðsla seðla í verslun kemur ekki í stað hraðbankaþjónustu.“

Í þriðja lagi skipti máli að bankinn sýni samfélagslega ábyrgð. Hraðbankaþjónusta, sem sé lægsta stig fjármálaþjónustu, gefi staðnum aukið vægi og styðji við byggðaþróun í kjölfar tíma þar sem þjónusta hefur farið þaðan.

Í fjórða lagi er bent á markaðshlutdeild bankans sem sé óvíða meiri en á Austurlandi. Bankinn eigi að horfa á heildarstöðu sína í sveitarfélagin „í stað þess að einblína á einstakar færslutölur sem greinilega eru eina rökfærslan fyrir lokun hraðbanka á Stöðvarfirði.“

Talsmenn bankans hafa lýst því yfir að til greina komi að endurskoða ákvörðunina reynist þjónustan í Brekkunni ekki fullnægjandi. Bæjarstjórinn segist í bréfi sínu annars vart geta ráðið annað af samtölum við stjórnendum bankans en þeir ætli sér ekki að setja upp annan hraðbanka á Stöðvarfirð. „Sé sú tilfinning rétt og gangi eftir yrðu það mikil vonbrigði.“

Því brýnir hann bankann til að bæta úr. Um leið og þakkað er fyrir frágang á nýjum hraðbanka á Eskifirði er Landsbankinn hvattur til að standa að „alvöru bankaþjónustu“ á Stöðvarfirði.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.