„Hvernig væri að breyta umræðunni?“

„Ástæða þess að þetta málefni varð fyrir valinu er sú að okkur sem að þessu stöndum finnst umræðan er mikið til neikvæð í samfélaginu um allt mögulegt,“ segir Salóme Rut Harðardóttir, forvarnarfulltrúi í Verkmenntaskólanum í Neskaupstað, en skólinn í samvinnu við fjölskyldusvið Fjarðabyggðar, foreldrafélögum Verkmenntaskóla Austurlands og Nesskóla standa fyrir árlegu forvarnarmálþingi í Neskaupstað á laugardaginn.


Í ár er málþingið undir yfirskriftinni Hver er sinnar gæfu smiður og í auglýsingu um það segir að í ár verði áherslan lögð á jákvæðni í víðu samhengi. Fyrirlesarar í ár eru þau Ólafur Stefánsson, fyrrum landsliðsmaður í handknattleik, en hann flytur erindið Þú ert hetjan í eigin lífi. Pálmar Ragnarsson flytur erindið Jákvæð samskipti, en hann er þjálfari og með B.Sc í sálfræði. Síðast en ekki síst flytur Hrönn Grímsdóttir, lýðheilsufræðingur, með erindið Hugarfar.

„Á málþinginu munum við horfa inn á við og huga að því hvað við getum gert til þess að verða betri mynd af okkur sjálfum. Það er svo margt jákvætt sem við gerum, upplifum og miðlum dags daglega. En einhverra hluta vegna finnum við okkur oft í neikvæðri umræðu um allskyns málefni og gleymum þessu jákvæða. Hvernig væri að breyta umræðunni?,“ segir Salóme Rut.

Málþingið verður haldið í Nesskóla og stendur milli klukkan 11:00 og 13:20. Húsið opnar klukkan 10:30, allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis. Á föstudaginn er ungmennum í Fjarðabyggð boðið á málþingið, en hún segir mætinguna undanfarin ár hafa verið mjög góða.„Þetta hefur verið virkilega vel sótt, ekki bara héðan úr Neskaupstað, heldur frá öllum fjörðunum sem er mjög ánægjulegt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.