Hvatt til aukinnar nýtingar orlofsréttar

Fjölskylduráð Múlaþings hvetur foreldra leikskólabarna til þess að gefa börnum sínum tækifæri til að njóta almennrar lengingar orlofsréttar í sumar. Og að nýta sér heimild til aukins gjaldfrjáls sumarleyfis í tengslum við sumarlokun leikskólanna.


Þetta kemur fram í nýrri fundargerð ráðsins en málið var rætt á fundi þess í gærdag.

„Leikskólastjórar hafa bent á að með nýjum kjarasamningur hefur réttur til starfsfólks til orlofs verið aukinn. Aukinn orlofsréttur og stytting vinnuviku eru hvoru tveggja aðgerðir sem geta aukið tækifæri fjölskyldunnar til samveru,“ segir í bókun frá fundinum.

"Komið hefur til skoðunar að lengja sumarlokun leikskólanna í 5 vikur í stað 4 vikna eins og hefð hefur verið fyrir en fyrirvari til slíkrar breytingar er talinn of stuttur nú. Þess í stað eru foreldrar eindregið hvattir til að gefa leikskólabörnunum tækifæri til að njóta almennrar lengingar orlofsréttar og nýta sér heimild til aukins gjaldfrjáls sumarleyfis í tengslum við sumarlokun leikskólanna.

Með því að sem flestir nýti sér þau tækifæri sem þar með gefast til lengra sameiginlegs orlofs foreldra og barna verður unnt að skipuleggja orlof starfsmanna með þeim hætti að sem minnst rót skapist í daglegu skipulagi leikskólanna og tryggja að aðlögun nýrra leikskólabarna geti hafist sem fyrst.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.