Horfnu störfin frá Bandaríkjunum fundin á Reyðarfirði

Bandaríkjaforseti hefur heitið því að efla aðbúnað verkamanna með að tryggja framleiðslustörf í Bandaríkjunum. Hluti þeirra starfa sem horfið hafa úr frumframleiðslu á undanförnum árum er að finna í álveri Alcoa á Reyðarfirði sem eflt hefur líf heimamanna.

„Sannleikann er að finna á austurströnd Íslands, í afskekktu þorpi sem áður byggði afkomu sína á síldveiðum. Þar stendur nýjasta verksmiðja Alcoa,“ segir í umfjöllun bandaríska stórblaðsins New York Times.

Í apríl fór Donald Trump, Bandaríkjaforseti, fram á að tollar og innflutningskvótar yrðu skoðaðir sem möguleikar til að efla álframleiðslu í Bandaríkjunum. Þar eru eftir fimm af þrjátíu risaverksmiðjum og er Kínverjum, sem styrkja sína framleiðslu með fé úr ríkissjóði, mest kennt um hnignunina.

Blaðamaður New York Times telur lausnina ekki svo einfalda. Kínverska álið sé aðeins 10% af bandaríska markaðinum. Nær sé að horfa til hás orkuverðs en útlit er fyrir að Ísland framleiði meira ál heldur en Bandaríkin í ár. Hérlendis fá álfyrirtækin rafmagn sem er þriðjungi ódýrara.

Óánægja verkafólks sem misst hefur lífsviðurværi sitt vegna færri framleiðslustarfa á sinn þátt í óvæntu kjöri Trump í fyrra. Verksmiðjubæir sem áður voru blómlegir eru orðnir að draugaþorpum.

Alcoa gaf bænum nýtt líf

Á Reyðarfirði hitti blaðamaður Times á móti fyrir heimamenn sem upplifa betri tíma eftir tilkomu álversins.

„Þessi staður var á góðri leið með að verða draugabær. Álverið er það besta sem komið hefur fyrir hann. Bærinn fékk nýtt líf og nýtt fólk,“ segir Ólafur Gunnarsson, 33 ára Reyðfirðingur sem starfað hefur í álverinu í 10 ár.

Þóra Kristín Sveinsdóttir var 17 ára þegar hún flutti til Reyðarfjarðar þegar faðir hennar fékk vinnu þar. Hún og systir hennar komu sér eins fljótt í burtu og þær gátu en hafa nú báðar snúið til baka.

„Ég væri ekki hér ef ekki væri fyrir álverið. Ég held að Alcoa hafi bjargað bænum.“

Bandaríkjamenn treysta á áframvinnsluna

Af 14.000 starfsmönnum Alcoa eru aðeins fjórðungur þeirra í Bandaríkjunum. Þar rekur fyrirtækið tvö álver, rekstur annars þeirra er tryggður til ársins 2019 með styrk frá New York fylki sem nemur milljörðum króna.

En breytingar sem urðu á skipulagi fyrirtækisins í fyrra endurspegla stöðu áliðnaðarins í Bandaríkjunum. Alcoa var þá skipt upp í tvennt, annars vegar álbræðslu, hins vegar fullvinnslu afurða úr áli.

Niðurstaða blaðsins er að áliðnaðurinn vilji ekki flytja störfin til baka. Þróunin í Bandaríkjunum sé í áttina að frekari fullvinnslu sem sé ábatasöm. Sú vinnsla, bæði hjá Alcoa og fjölda annarra fyrirtækja sem rætt er við í greininni, treystir á frjáls viðskipti. Hugmyndir Trump um tolla og kvóta gætu raskað stöðu þeirra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.