„Heimsfrumsýning á treyjunni er frá Seyðisfirði“

Upphitunarmyndband frá KSÍ fyrir heimsmeistaramótið í fótbolta í sumar var tekið upp á Seyðisfirði í síðustu viku. Búningarnir verða svo frumsýndir á morgun.


Í samtali við fulltrúa frá KSÍ kemur fram að grunnhugmyndin hafi alltaf verið sú að taka auglýsinguna upp í fallegri náttúru og snjó. Það hafi þó verið leikstjóri hjá Sagafilm, sem endanlega ákvað staðsetninguna.

Í stiklunni sem frumsýnd var í Vikunni með Gísla Marteini á RÚV síðastliðið föstudagskvöld sást heilmikið af mikilfenglegri náttúru Seyðisfjarðar og örlítið brot af nýja landsliðsbúningnum.

„Við vorum fáránlega heppin með veður þennan dag á Seyðisfirði, aðstæður voru eins og best var á kosið. Búningurinn verður svo frumsýndur á morgun, þannig að heimsfrumsýning á treyjunni er frá Seyðisfirði, en stiklan er nú þegar komin um allan heim. Áhuginn á Íslandi í heimsmeistarakeppninni er gríðarlegur, bæði á liðinu og búningnum,“ segir fulltrúi frá KSÍ.

Góð og rétt landkynning alltaf af hinu góða
„Ég hef nú ekki séð stikluna sjálfur en heyrt að hún sé falleg,“ segir Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri á Seyðisfirði.

Vilhjálmur segist ekki hafa haft hugmynd um hvað var að gerast á staðnum þegar auglýsingin var tekin upp, enda mikil leynd sem ríkti yfir staðsetningu hennar. „Það eina sem ég sá var að menn fóru til fjalls með trommu, en það þótti mér athyglisvert án þess að vita hvað væri að gerast.“

Vilhjálmur er ánægður með að Seyðisfjörður hafi orðið fyrir valinu hjá KSÍ. „Góð og rétt landkynning er alltaf að hinu góða. Auglýsingin er tekin upp þegar allt er á kafi í snjó og það er þá góð viðbót við annað kynningarefni sem til er frá Seyðisfirði. Almennt tel ég að svona nokkuð skipti heilmiklu máli og komi til með að vekja mikla athygli, en þess má vænta að þetta myndband beri fyrir augu ansi margra.“







Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.