HB Grandi byggir upp bolfiskvinnslu á Vopnafirði: Fjárfesting upp á hundruðir milljóna

HB Grandi ætlar að ráðast í miklar fjárfestingu á Vopnafirði við uppbyggingu bolfiskvinnslu á staðnum til að mæta miklum samdrætti í uppsjávarveiði. Undirbúningur er skammt á veg kominn en gert er ráð fyrir að vinnsla hefjist í haust.


Þetta tilkynnti Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri Granda, á fjölmennum íbúafundi um atvinnumál á Vopnafirði í gærkvöldi og uppskar lófatak fyrir. Óhætt er að segja að Vilhjálmur hafi verið vinsælasti maðurinn í salnum þar sem fjöldi gesta kom til hans að fundi loknum til að þakka honum fyrir.

Vopnafjörður hefur sérhæft sig í uppsjávarveiði síðustu ár og hún verið gjöful. Verulega hefur þó hallað undan fæti síðustu misseri, síldarlöndum hefur minnkað verulega og loðnuvertíðin er ekki enn farin af stað þrátt fyrir að veiðitímabilið sé hálfnað. Útlitið var hins vegar ekki gott eftir að Rússar settu innflutningsbann á íslenskan fisk í haust en þeir hafa borgað vel fyrir frysta loðnu.

Vilhjálmur sagði stjórnendur HB Granda hafa skoðað ýmsa möguleika, svo sem frekari vinnslu kolmunna, en að lokum komist að þeirri niðurstöðu að bolfiskvinnsla væri eini raunhæfi valkosturinn með viðunandi arðsemi.

Því hafi stjórn félagsins ákveðið á fundi í síðustu viku að fjárfesta í bolfiskvinnslu á Vopnafirði sem taki til starfa að lokinni sumarvertíð á síld og makríl. Vinnslan mun liggja niðri þegar aðrar vertíðir eru í gangi.

Ýmislegt er þó enn óákveðið, svo sem hvers konar sérhæfingu áhersla verður lögð á eða hvaða kvóti verði nýttur í vinnsluna. Hópi stjórnenda hefur hins vegar verið falið að vinna að undirbúningnum. „Við höfum einhverja mánuði til að velta fyrir okkur hvernig við förum að,“ sagði Vilhjálmur.

Hann gat heldur ekki svarað fyrirspurn um hversu mörg störf yrðu til með vinnslunni þar sem enn er óljóst hvaða tækjum vinnslan verður búin. „Undirbúningurinn er rétt að byrja.“

Jafnt aðrir frummælendur sem fundargestir fögnuðu ákvörðun Granda. „Þetta er það gleðilegasta sem ég hef heyrt á ferð minni um svæðið í dag. Fyrirtækið sýnir ekki eingöngu samfélagslega ábyrgð heldur líka trú á samfélaginu úti á landi,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra.

„Takk fyrir að gefa fólkinu kjarkinn aftur,“ voru lokaorð Sigríðar Dóru Sverrisdóttur, íbúa á Vopnafirði sem kvaddi sér hljóðs undir pallborðsumræðunum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.