Hætta á rafmagnstruflunum á Seyðisfirði á morgun

Hætta er á rafmagnstruflunum á Seyðisfirði á morgun meðan ísing verður hreinsuð af raflínum á Fjarðarheiði. Ágætlega hefur gengið að koma rafmagni á bæinn eftir að stór skriða féll á utanverðan kaupstaðinn á föstudag. Nokkur hús eru þó enn án rafmagns.

Rafmagn fór af nær öllum utanverðum kaupstaðnum á föstudag þar sem spennistöð eyðilagðist í skriðunni. Síðan hafa starfsmenn Rarik unnið að því að koma á rafmagni aftur.

Á upplýsingafundi í dag kom fram að fjögur hús við Austurveg eru enn án rafmagns og verða það uns hægt verður að setja upp nýjan götuskáp. Það verður ekki hægt fyrr en búið er að hreinsa skriðuna þannig starfsmenn Rarik geti athafnað sig þar sem fara þarf undir yfirborðið til að komast í heila strengi.

Heitt vatn er komið á öll hús út að Búðará. Til að fara lengra þarf að komast í brunna sem eru undir stóru skriðunni. Ljóst er því að einhver bið verður á því. Búið er að tryggja að hús haldist þýð með rafmagnsofnum og bráðabirgðalögnum ofan jarðar.

„Áframhaldandi aðgerðir til að allir fái heitt vatn og rafmagn fylgja hreinsunarstörfum. Við vinnum okkar verk um leið og hægt er,“ sagði Guðmundur Hólm Guðmundsson frá Rarik.

Allra síðustu daga hefur síðan hlaðist ís á raflínuna yfir Fjarðarheiði og þarf að taka rafmagn af henni til að hreinsa hana. Það verður gert milli klukkan 10 og 16 á morgun. Línan er í umsjá Landsnets en skömmu áður en hreinsun hefst mun orkukerfi Rarik á Seyðisfirði verða skilið frá dreifikerfi Landsnets.

Það þýðir að rafmagnslaust verður utan skriðunnar í sunnanverðum Seyðisfirði á meðan aðgerðin stendur yfir og hætta á truflunum annars staðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.