„Gaman að vera kominn aftur þangað sem þetta byrjaði“

Fyrstu nýju vörurnar frá Fellabakaríi verða kynntar um helgina. Ágúst Einþórsson, bakari og stofnandi Brauðs & Co., hefur aðstoðað við þróunina og fylgir vörunum úr hlaði um helgina.

„Það verða nokkrar nýjar vörur í hillunum sem við Björgvin (Kristjánsson, bakarameistari) höfum verið að prófa okkur áfram með.

Í sannleika sagt er ég ekki alveg búinn að ákveða hvað við verðum með, ég hef enn nokkra klukkutíma fyrir það. Ég er þó með hér í vélinni súrdegisspeltbrauð, er að gera crossaint og búinn að baka dönsk rúgbrauð.

Síðan er verð ég með Babka, fræga gyðingaköku. Hún er gerð úr afgangi af deigi og kökum sem nóg af kaffi er bætt út í. Þetta hljómar kannski ekki spennandi en er ein af mínum uppáhaldskökum, hún er alveg frábær,“ segir Ágúst.

Alinn upp á Fellabrauði eins og fleiri

Nýju vörurnar verða á boðstólunum í Fellabakarí á morgun og veitingastaðnum Salti á morgun en Ágúst mun sjálfur standa vaktina þar frá klukkan tíu í fyrramálið og eitthvað fram eftir hádegið. Helgin markar upphaf breytinga á Fellabakaríi í kjölfar þess að 701 Hotels keypti það fyrr í mánuðinum. Ágúst verður innan handar í því þróunarstarfi. Hann segir þó ekki markmiðið að gjörbylta bakaríinu.

„Það er hefur verið margt fallegt í gangi hjá Fellabakaríi, til dæmis heilhveitibrauðið og flatbrauðið. Ég er alinn upp á þeim eins og svo margir aðrir sem vilja eflaust halda þeim áfram í lífi sínu. Gömlu, góðu vörurnar verða því áfram á boðstólunum en síðan bætast við nokkrir nýir vöruliðir og þar kem ég að borðinu,“ segir Ágúst sem er alinn upp á Héraði og hóf ferilinn í Fellabakaríi.

Kleinuhringur sem vatt upp á sig

„Ég kom hingað fyrst í starfskynningu í grunnskóla. Ég valdi bakaríið því ég vissi ég fengi frían karamelluhring eftir vaktina. Þessi kleinuhringur með karamellu hefur því heldur betur undið upp á sig.

Ég fór síðan að læra hér hjá Björgvini. Það var ekki út af brjáluðum áhuga á bakstri heldur því ég hafði ekki trú ég gæti lært neitt í menntaskóla. Hér voru margir meistarar að vinna og það var oft fjör hjá okkur á næturvaktinni. Ég hef líka stundum sagt að þetta hafi verið eini tíminn í lífi mínu þar sem ég hafi verið móttækilegur fyrir því að hlusta. Á öðrum stöðum hef ég ekki lært neitt fyrr en ég var farinn.

Á milli þess sem ég var hér í sumarvinnu og byrjaði að læra fór ég í Hússtjórnarskólann á Hallormsstað þar sem Þráinn (Lárusson, eigandi 701 Hotels) var skólastjóri. Hann lá ekki á skoðunum sínum við okkur krakkana um ýmislegt fleira en námi og það var gaman að því eftir á.

Ég er því hér að vinna með bæði mínum gamla meistara og kennara. Mér finnst gaman að vera komin aftur hingað sem bakaraferillinn byrjaði og fá að gefa til baka.

Það eru líka alltaf einhverjir héðan af svæðinu að skora á mig að koma heim og baka. Það er því eins gott þeir komi sér á fætur í fyrramálið og mæti til að kaupa brauð!“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.