Fyrsta wasabi uppskeran sprettur vel

Von er á að fyrsta uppskeran af wasabi-plöntum, sem ræktaðar eru í gróðurhúsi Barra við Fellabæ, verði tilbúin í byrjun sumars. Um er að ræða einu ræktunina á Norðurlöndum.


„Við erum með hálft hús undir ræktunina. Okkur líst mjög vel á ræktunina, það er allt samkvæmt áætlun. Það er frábært að vera hjá Barra og aðstaðan til fyrirmyndar,“ segja þeir Ragnar Atli Tómasson og Johan Sindri Hansen sem standa að baki henni.

Gróðursett var í maí-september í fyrra en það tekur um ár fyrir plöntuna að vaxa upp í nýtingarstærð.

Wasabi-plantan er fyrst og fremst ræktuð í Japan, enda er hún mjög vinsæl með sushi. En það wasabi sem flestir fá með sushi er hins vegar ekki wasabi.

„95% af því sem selt er sem wasabi á heimsvísu er blanda af piparrót, matarlit og sinnepi. 100% wasabi er gert úr stilknum. Þess vegna afhendum við stilkinn beint til viðskiptavinar og hann er rifinn niður og maukaður að viðskiptavininum viðstöddum þannig hann viti að þetta er alvöru.“

Við fréttum af hversu hátt hlutfall á heimsmarkaði væri ekki alvöru wasabi og sáum tækifæri þar. Það er mjög spennandi að rækta grænmeti á Íslandi með íslenskum auðlindum í útflutningsskyni – að nýta vatnið, jarðhitann og rafmagnið.“

Þegar er búið að selja hluta uppskerunnar innanlands og verið er að kanna möguleika á erlendum mörkuðum þangað er stefnan sett. „Eins og er þá er þetta eina framleiðslan sem við vitum af á Norðurlöndunum. Wasabi hefur verið ræktað í Bandaríkjunum en fyrst og fremst Japan.“

En það er ekki eingöngu stilkur plöntunnar sem er nýttur heldur líka blómin og laufblöðin. „Blómin eru sterk en þó ekki jafn sterk og stilkurinn. Það er hægt að borða þau eintóm, út í salat eða sem meðlæti með ýmsum réttum. Þau eru mjög falleg og sóma sér vel á diskinum.

Við höfum aðeins leyft kokkum að spreyta sig á þeim og svo vorum við með smakk fyrir þá sem komu á jólamarkað Barra.“

Afskorin Wasabi blóm. Mynd: Ragnar Atli Tómasson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.