Fimmtíu metra breitt snjóflóð í Hvalnesskriðum

Nokkur snjóflóð féllu á veginn í Hvalnesskriðum í nótt og lokuðu honum. Það stærsta var um fimmtíu metra breitt.


„Við fréttum bara af flóðinu þegar ruðningsbíllinn frá Djúpavogi kom í skriðurnar í morgun. Það fór yfir stálþil sem er þarna við grjótvörn,“ segir Reynir Gunnarsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni á Höfn.

Hann segir 2-3 minni spýjur hafa fallið á veginn í skriðunum. Vestan við skriðurnar, inni í Hvaldal, féll einnig snjóflóð sem náði niður á veg.

Unnið er að því að opna veginn milli Hvalness og Hafnar en það hefur tafist vegna flóðanna. Veður er að ganga niður á svæðinu en það var mjög vont í gærkvöldi og nótt að sögn Reynis.

Enn er ófært til Borgarfjarðar, Seyðisfjarðar, Vopnafjarðar og yfir Möðrudalsöræfi en unnið er að mokstri um allt Austurland. Afar hvasst hefur verið á Vatnsskarðinu og mældist 49 metra hviða þar klukkan tvö í nótt.

Verulega hefur bætt á snjóinn eystra í nótt enda úrkoma mikil. Mest hefur hún verið undanfarinn sólarhring í Neskaupstað, 53,4 mm en 48,2 mm á Eskifirði og 40,1 á Ljósalandi í Fáskrúðsfirði.

Mynd: Vegagerðin

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.