Enskur kökugerðarmeistari bakar fyrir Vopnfirðinga

„Vopnfirðingar eru mjög vinsamlegt fólk í umgengni og það var það sem kom mér helst á óvart. Það kom mér líka á óvart hve þetta er fallegur staður,“ segir Louise Chouhan, enskur kokkur og kökugerðarmeistari (conditore), sem sest hefur að á Vopnafirði. Hún vinnur sem stendur í sjoppunni, Öldunni, en hefur tekið að sér að baka kökur fyrir vini sína á staðnum.

Louise hefur ferðast víða um heiminn og unnið fyrir sér með matseld eða bakstri. Hún hefur dvalið lengst af á Nýja Sjálandi á undanförnum árum en víða annarsstaðar. Hún nefnir staði eins og Ítölsku alpana, Svíþjóð og Hawai. Sjálf er hún frá Newquay í Cornwall.

„Ég kom hingað fyrst fyrir einum fimm árum síðan og þá eftir átta ára dvöl á Nýja Sjálandi. Ég fór svo aftur til Englands en ákvað fyrir níu mánuðum síðan að flytja aftur til Íslands. Þá var lítið um atvinnu á Bretlandseyjum vegna COVID sem leikið hefur þjóð mína illa,“ segir Louise.

Eftir að Louise kom til Íslands í seinna skiptið fór hún fyrst að vinna á Akureyri sem kokkur á Kaffi Ilmur en ákvað síðan að flytjast til Vopnafjarðar.

„Ég er núna að vinna í sjoppu og vonast til að fá vinnu í mínu fagi þegar sumarið kemur. Annars er ágætt að slappa af frá sínu aðalfagi annað slagið,“ segir Louise. „Ástæðan fyrir því að Vopnafjörður varð fyrir valinu er að ég kann best við mig í smáum bæjarfélögum þar sem allir þekkjast.“

Louise segir einnig að það hafi komið sér ánægjulega á óvart hversu lík samfélög Ísland og Nýja Sjáland eru, hvort sem horft er til landbúnaðar eða sjávarútvegs. „Það er líka fullt af litlum sjávarþorpum á Nýja Sjálandi en ég kann mjög vel við mig í slíkum samfélögum.“

Hvað vinnu sína varðar segir Louise að hún hafi sérhæft sig í kökugerð og matreiðslu á sjávarréttum. Hinsvegar eldi hún ekki kjöt þar sem hún er grænmetisæta. Draumurinn sé að opna vegan veitingahús í framtíðinni.

„Ég hef aðeins staðið í kökubakstri hér á Vopnafirði en það hefur einkum verið fyrir vini mína. Þó er til í dæminu að íbúar hér hafi beðið mig um að baka kökur fyrir sig og það er alveg sjálfsagt mál,“ segir hún.

Aðspurð um hvað hafi komið sér helst á óvart undanfarna mánuði á Vopnafirði segir hún það vera veðrið. „Þrátt fyrir smávegis snjókomu hefur veður hér verið stillt og milt,“ segir Louise. „Þegar ég kom hingað til lands í fyrsta sinn fór ég að vinna í Stykkishólmi og þar var alltaf rok og leiðinlegt veður.“

Mynd: Aðsend.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.