Enn á huldu hvaða hlutverki gamla kirkjan á Djúpavogi skal gegna

Köll hafa verið eftir því um nokkurra ára skeið að ákvörðun verði tekin um hvaða starfsemi skuli vera í gömlu kirkjunni á Djúpavogi í framtíðinni. Enn liggur það ekki fyrir og á meðan er ekki hægt að vinna að neinum endurbótum innandyra.

Unnið hefur verið að endurbótum utandyra á kirkjunni gömlu síðustu árin og til endurbóta hennar fengist ágætir styrkir síðustu árin bæði frá Húsafriðunarnefnd og Minjastofnun Íslands. Það fjármagn verið nýtt til að endurnýja kirkjuna að utan og er því verki svo gott sem lokið að sögn Rúnars Matthíassonar, húsasmíðameistara, sem hefur haft umsjón með endurbyggingunni.

Lengra verður þó ekki haldið á meðan óljóst er hvers konar starfsemi skal verða þar eftirleiðis en ýmsar hugmyndir þess efnis hafa komið fram gegnum tíðina bæði frá embættismönnum sem og íbúum sjálfum.

Sjálfur segir Rúnar að kirkjan sé svo gott sem bara fokheld innandyra á þessu stigi svo að jafnvel þó að menn komi sér saman um hlutverk hússins þá taki nokkurn tíma í kjölfarið að vinna það sem þarf þar inni.

„Þetta hafa verið svo fjölbreytilegar hugmyndir um hvað þarna skuli vera að það er óráð að hefjast þar handa nema það liggi alveg fyrir. Ég hef heyrt hugmyndir allt frá því að vera því sem næst bara geymsla og upp í að vera tónleikasalur. Það verður að taka af allan vafa með ákvörðun áður en við getum farið að setja niður gólf og undirbúa það sem þarna skal vera í náinni framtíð.“

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings bókaði í síðasta mánuði að heimastjórn Djúpavogs þyrfti að taka af skarið með framtíðarnýtingu kirkjunnar gömlu. Í bókun heimastjórnar í kjölfarið í byrjun þessa mánaðar var bókað að farið hefði verið yfir þær tillögur sem borist hefðu um nýtingu kirkjunnar undanfarin misseri og áfram yrði unnið að þeirri vinnu áður en ákveðið yrði með hvaða hætti skyldi komist að niðurstöðu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.