Enginn alvarlega veikur um borð í súrálsskipinu

Ekki hafa greinst fleiri Covid-19 smit um borð í flutningaskipinu Taurus Confidence sem verið hefur í Mjóeyrarhöfn frá því á laugardag. Skipverjar virðast sinna sóttvörnum vel um borð.


Læknir og hjúkrunarfræðingur fóru um borð í skipið eftir hádegi í dag til að kanna líðan skipverja, en tíu af nítján hafa greinst með Covid-veiruna. Enginn er alvarlega veikur og því enn engin ástæða til að flytja neinn frá borði til frekari aðhlynningar.

Tekin voru sýni úr allri áhöfninni þegar skipið kom til hafnar seinni part laugardags. Á mánudag var aftur tekið sýni úr þeim sem reyndust neikvæðir í fyrra skiptið og voru þeir áfram neikvæðir. Úr þeim var einnig tekið blóðsýni til að kanna hvort þeir hefðu fengið veiruna en svo reyndist heldur ekki vera.

Allir skipverjar eru um borð en þeim smituðu er haldið einangruðum meðan hinir eru í sóttkví. Virðist sem skilin þar á milli haldi vel og ekki annað að sjá en sóttvörnum sé vel sinnt um borð, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi.

Ekki er talin yfirvofandi hætta á að smit berist út frá skipinu.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.