Engin hreyfing að ráði mælst yfir jólin

Vonast er til að hægt verði að aflétta rýmingum á Seyðisfirði að einhverju leyti í dag. Veðrið um jólin var kjörið til að kanna stöðugleika í hlíðunum ofan bæjarins í sunnanverðum firðingum. Engin teljandi hreyfing hefur verið á því síðustu daga.

„Það hefur engin umtalsverð hreyfing mælst á þessu svæði sem við fylgjumst með frá því fyrir jól. Það var hreyfing fyrstu dagana eftir skriðurnar en síðan hefur hún minnkað og er nánast horfin.

Því er ekki annað að sjá en stöðugleikinn fari batnandi,“ segir Tómas Jóhannesson hjá ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands.

Veðrið yfir hátíðarnar var að mörgu leyti kjörið til að sjá hver staðan væri. Á aðfangadag og jóladag var hlýtt þannig að snjórinn í fjöllunum bráðnaði og í gær var úrhellisrigning.

„Það er mjög gott að hafa fengið álag á svæðið, að fá vatn sem streymir um jarðlögin og sjá til hvers það leiðir. Sem betur fer virðist stöðugleikinn vera svo góður að ekki hreyfir við þeim jarðlögum sem los komst á í skriðuhrinunni,“ segir Tómas.

Vonast er til að minnsta kosti hluti þeirra íbúa sem ekki fékk að fara heim fyrir jól geti gert það í dag. „Væntanlega verður hluta þeirra aflétt síðar í dag þegar mælingar hafa borist frá þeim tækjum sem við erum með. Við getum ekki komist á svæðið í dag þannig að hluta rýmingarinnar verður ekki aflétt fyrr en aðstæður verða kannaðar á morgun. Við vonumst til að geta smá saman létt á þeim tilmælum sem í gildi eru þannig að íbúar og björgunarfólk komist inn á þessi svæði.“

Í dag er einnig að vænta nánari upplýsinga frá Veðurstofunni á umfangi skriðufallanna fyrir jól og hvernig staðið var að mati á hættu og rýmingum.

Þá hefur einnig verið fylgst með hreyfingum í Oddsskarðsvegi, ofan Eskifjarðar. Ekki tókst að mæla þar í gær en annars hefur verið farið á staðinn daglega og þar er allt með kyrrum kjörum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.