Ekki útlit fyrir hreinsun á Seyðisfirði vegna veðurs í dag

Ekki er neitt útlit fyrir að byrjað verði að hreinsa til eftir aurflóðin sem féllu á Seyðisfirði fyrir jól í dag. Ófært er yfir Fjarðarheiði og hæpið að koma nauðsynlegum mannskap eða tækjum á staðinn.

„Ég er að taka stöðuna og skipuleggja mig aftur,“ segir Jens Hilmarsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi og vettvangsstjóri á Seyðisfirði. Jens fékk frí um jólin en mætti aftur til starfa í morgun.

Hann er búsettur á Héraði og fór í humátt á eftir snjóruðningstæki yfir heiðina í morgun. Sú ferð gekk ekki vel. „Við vorum tveir sem fylgdum plógnum. Mér tókst samt að tína þeim tvisvar. Það er enginn að koma niður eftir í þessu veðri.“

Af þessum sökum er afar ólíklegt að nokkuð verði byrjað við hreinsunarstarf eftir aurflóðin sem heitið getur í dag.

Úrkoma á Seyðisfirði í gær mældist yfir 30 mm, en úr henni dró eftir því sem líða tók á daginn. Auk þess kólnaði þannig að snjórinn færði sig sífellt neðar í hlíðarnar.

Jens segist ekki hafa aðrar upplýsingar en hlíðarnar fyrir ofan bæinn hafi verið nokkuð stöðugar um hátíðarnar. Enn er beðið tíðinda af því hvort hægt verði að aflétta rýmingum sem enn eru í gildi í efstu götum byggðarinnar í sunnanverðum firðinum.

Frá Seyðisfirði á Þorláksmessu. Mynd: Almannavarnir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.