Ekki heimilt að búa í húsunum við Stöðvarlæk

Ekki verður heimilt að búa í húsum sem eftir standa við Stöðvarlæk, utan við stóru skriðuna sem féll á Seyðisfjörð 18. desember síðastliðinn. Ekki er talið að hægt sé að verja byggðina þar fyrir stærri skriðum.

Þetta var staðfest á fundi sveitarstjórnarfundi Múlaþings í dag. Fyrir fundinum lá frumathugunarskýrsla frá Veðurstofu Íslands um mögulegar ofanflóðir fyrir íbúabyggð á svæðinu.

Í skýrslunni kemur fram að mögulegt sé að verjast minni skriðum, allt að 5000 rúmmetrum, en ekki er talið raunhæft að verjast skriðum úr sífreranum undir Strandartindi eða skriðum úr hlíðum farvegar lækjarins ofan Neðri-Botna með góðu móti.

Þetta þýðir að þótt byggðar yrðu varnir yrðu fjögur hús á þessu svæði áfram á hættusvæði C. Ekki er talið hægt að verja þau þannig að ásættanleg áhætta náist og samþykkir sveitarstjórn því að ekki verði heimiluð íbúabyggð þar. Húsin standa öll við Hafnargötu og bera númerin 40B, 42, 42B og 44B.

Óvissa um hvað fæst fyrir húsin

Því óskar Múlaþing eftir stuðningi Ofanflóðasjóðs við að kaupa upp þessi hús. Það sem flækir málið er að Náttúruhamfaratrygging Íslands bætir hús sem eyðilögðust í skriðunum samkvæmt brunabótamati en Ofanflóðasjóður fer eftir fasteignamati, sem er töluvert lægra.

Í bókun sveitarstjórnar segir að við mat á eignunum verði litið til þeirra menningarverðmæta sem í þeim felast og endurbóta sem á þeim hafa verið gerðar í samráði við Minjastofnun Íslands, þar sem það á við. Einnig leggur sveitarstjórn áherslu á að við mat á eignunum verði horft til enduröflunarvirðis þeirra.

Þessi mismunur var töluvert ræddur á fundinum og sagði Elvar Snær Kristjánsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks, að lögin væru gölluð.

„Það er mikilvægt að miða ekki við fasteignamat á Seyðisfirði því það hefur ekki verið í neinum takti við markaðinn hér, þar sem verið hefur skortur og umframeftirspurn. Þar fyrir utan hafa margir eigendur lagt mikið fjármagn og vinnu í þessar eignir. Þess vegna er mikilvægt að þeir fái bætur sem gera þeim kleift að byggja eða kaupa annað,“ sagði Hildur Þórisdóttir, fulltrúi Austurlistans.

Leitt að þurfa að taka þessa ákvörðun

Sveitarstjórnarfulltrúar úr öllum flokkum tóku til máls og sögðu stöðuna dapurlega. Þeim þætti erfitt að taka þessa ákvörðun og sögðust einungis geta ímyndað sér hvernig íbúum þessara húsa liði. Eftir því væri hins vegar kallað að vinna málin hratt og eyða allri óvissu sem fyrst. Ákvörðunin væri í takt við það. Þá var Veðurstofunni þakkað fyrir hraða og góða vinnu við gerð frumathugunarskýrslunnar.

„Þetta er sérstök ákvörðun að taka en baksvið hennar er vönduð skýrsla sem borist hefur fljótt miðað við að verkið var vandasamt,“ sagði Vilhjálmur Jónsson, fulltrúi Framsóknarflokksins.

Þarf að skoða svæði til framtíðar

Þá var bent á stöðu atvinnustarfsemi á svæðinu, en ofanflóðavarnir væru ekki byggðar í kringum hana. Elvar Snær benti mál að skoða yrði löggjöf um þau mál. Hildur benti á að Silfurhöllin, sem hýst hefði nokkur smáfyrirtæki, hefði eyðilagst í skriðunum og vantaði nú sambærilegt húsnæði á Seyðisfirði. Þá bætti hún við að brýnt væri að nýtt íbúðarhúsnæði risi fljótt og vel.

Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnar, sagði að skrefið sem nú væri stigið væri aðeins eitt margra nauðsynlegra til að bregðast við ástandinu í kjölfar skriðufallanna í desember. Framan af hefði sveitarfélagið verið að bregðast við neyðarástandi og svo færi enn en senn þyrfti að horfa til framtíðar. Ráðast þyrfti í skipulagsgerð og velja þau svæði sem byggt verði á í firðinum í framtíðinni í samvinnu við heimamenn, atvinnulíf og sérfræðinga í ofanflóðamálum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.