Ekki hægt að nota hluta olíubirgðastöðvar vegna jarðsigs

Ekki er hægt að nota hluta af olíubirgðastöð Skeljungs á Eskifirði vegna jarðsigs. Starfsleyfi fyrir slíkar stöðvar á Seyðisfirði eru gefin út til takmarkaðs tíma þar sem skipulag skortir.

Þetta kemur fram í auglýsingu fyrir starfsleyfi stöðvarinnar. Þar segir að mikið sig sé í syðri þrónni og það þurfi að laga áður en starfsleyfi verði gefið út fyrir hana. Svigrúm er fyrir Umhverfisstofnun að gefa út starfsleyfi þegar sýnt er fram á að lekavarnir séu í lagi fyrir syðri þróna.

Megingeymarnir þrír í stöðinni eru í syðri þrónni og má í þeim geyma allt að 2.150 rúmmetra af olíu. Þeir eru ekki í notkun í dag og verða ekki teknir í gagnið á ný fyrr en gert hefur verið við þróna.

Heimilt er að geyma allt að 7.000 rúmmetra af olíu í nyrðri þrónni, þar af helminginn í stærsta geyminum. Starfsleyfi fyrir hana er gefin út til ársins 2034.

Verið er að auglýsa starfsleyfi fyrir olíubirgðastöðvar víða um landið þar sem ný reglugerð um varnir gegn olíumengun frá landi tók gildi í haust. Núverandi starfsleyfi gilda út janúar en athugasemdafrestur við nýju starfsleyfin er til morguns.

Almennt eru starfsleyfin veitt til ársins 2034, þar á meðal til stöðvar Olíudreifingar á Vopnafirði þar sem heimilt er að geyma 1500 rúmmetra af olíu.

Starfsleyfi fyrir birgðastöðvar Skeljungs og Olíudreifingar á Seyðisfirði eru hins vegar aðeins til fjögurra ára.

Í starfsleyfistillögunum er bent á að ekki sé til deiluskipulag fyrir svæðið og eins vanti umsögn frá Seyðisfjarðarkaupstað á því hvort stöðvarnar samræmist landnotkun og byggðaþróun í aðalskipulagi.

Heimilt er að geyma 2.300 rúmmetra í stöð Olíudreifingar en 450 í stöð Skeljungs. Þá er í starfsleyfistillögunum á Seyðisfirði sérstaklega tilgreint að viðbrögð við mengun taki mið af skriðu- og snjóflóðahættu auk þess sem áfyllingarplan skuli verja fyrir áfangi sjávar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.