Ekki gerðar tilraunir á sjúklingum með að senda þá á Norðfjörð

Framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) viðurkennir að hvimleitt sé hve oft sjúklingar séu sendir aftur til baka í Egilsstaði til að fara í sjúkraflug eftir að hafa verið sendir á umdæmissjúkrahúsið í Neskaupstað til rannsókna. Formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs segir íbúa þar óttast um heilsu sína þegar þeim sé ekið fram og til baka.


Þetta kom fram á íbúafundi um heilbrigðismál á Fljótsdalshéraði sem haldinn var fyrir skemmstu en þar sátu fulltrúar HSA fyrir svörum.

Íbúar lýstu þar áhyggjum sínum á að sjúklingar í bráðatilfellum væru fyrst fluttir á Norðfjörð en síðan sendir aftur upp í Egilsstaði í sjúkraflug að loknum rannsóknum frekar en þeir væru sendir beint í flug suður til Reykjavíkur. Kallað var eftir greiningarstöð á Egilsstöðum til að fækka þessum tilfellum.

Meðal þeirra var Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs. „Það gerist slag í slag að sjúklingar eru á ögurstundu fluttur á Norðfjörð og síðan aftur upp eftir. Þetta hafa bæði sjúkraflutningamenn og fólk sem ég þekki sagt mér. Jafnvel þegar farið er með alvarlega veikt fólk tekur allt að fjóra tíma að berjast til baka yfir Oddsskarð.

Það hefur enginn á móti því að menn fari á sjúkrahúsið í Neskaupstað en mér er illa við að verið sé að gera tilraunir með sjúklinga.“

Hvimleitt hve oft fólk er sent til baka

Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, aftók að tilraunir væru gerðar á sjúklingum en bætt síðar við að hvimleitt væri „hve oft fólk væri sent upp eftir að hafa verið sent til rannsókna í Neskaupstað.

Hún sagði að á Egilsstöðum vantaði ýmsan búnað til að gera nánari greiningar á sjúklingum en hann væri á Norðfirði. Því yrði ekki breytt og ekki væri vilji til þess innan HSA. „Það er ekki stefnt að greiningarstöð á Egilsstöðum er eins og er. Það hefur verið rætt um hana en slík deild krefst mikillar sérhæfingar tækja og starfsfólks.

Hún sagði jafnfram að frá árinu 2009 séu heldur ekki lengur sjúkrarými til innlagnar á Egilsstöðum. Eftir séu fjögur sjúkrarúm til að þjónusta eldri borgara, fyrir fólk í lífslokameðferðum eða til að taka við fólki í hvíldarinnlagnir eftir aðgerðir.

Málið snýst ekki bara um búnaðinn heldur einnig það fagfólk sem sé til staðar og þessa þekkingu er að finna á Egilsstöðum. Nína sagði ennfremur að bætt hefði verið við þjálfun bæði hjúkrunarfræðinga og lækna í bráðagreiningum til að reyna að fækka þeim skiptum sem senda þurfi sjúklinga frá Norðfirði strax að lokinni rannsókn.

Ástand sjúklinga getur breyst

Hrönn Garðarsdóttir, læknir á Egilsstöðum, sagði það fara eftir aðstæðum á Norðfirði og hvaða sérfræðingar væru þar við störf hverju sinni hvaða sjúklingar væru sendir þangað. Hún benti á að töluvert af sjúklingum væri sent suður, árlega færu 140-50 sjúkraflug frá Egilsstöðum þótt vissulega væru þau ekki öll af Héraði.

Ennfremur benti Hrönn á að ástand sjúklinga breytist eftir því sem tíminn líður. Staðan getið verið önnur þegar komið sé á Norðfjörð en þegar farið var frá Egilsstöðum.

En Hrönn gagnrýndi líka umræðuna fyrir að vera litaða af hrepparíg milli Héraðs og fjarða. „Ég hafði unnið víða þegar ég kom hingað og hugsaði með mér að Akureyri-Húsavík væri það versta sem ég hefði kynnst en Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð sló öllu við. Mér finnst þar samt hafa breyst til batnaðar en rígurinn var eitt það ömurlegasta sem ég fann fyrir.“

Snýst ekki um hrepparíg heldur faglega samvinnu

Fundargestir tóku talinu um hrepparíg misvel. Einn sagði þannig að sér væri misboðið að það væri álitinn hrepparígur að vilja nýta bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu. Ekki væri hægt að efla heilbrigðisþjónustu innan svæðis á kostnað mannslífa.

„Það er rétt að umdæmissjúkrahúsið er ekki rétt staðsett miðað við íbúaþróun síðustu sextíu ára en við sitjum uppi með þá ákvörðun og við viljum styðja við það, byggja upp og nýta eins og við getum. Það snýst ekki um hrepparíg heldur faglega samvinnu,“ svarði Nína Hrönn.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.