Einar efstur hjá Pírötum

Einar Brynjólfsson varð efstur í prófkjöri Pírata í Norðausturkjördæmi sem lauk í dag. Hann hlaut yfirburðakosningu í kjörinu.

Einar, sem sat á þingi fyrir flokkinn 2016-17, fékk 136 atkvæði í 1. sætið. Alls var 281 atkvæði greitt í kjörinu.

Katla Hólm Vilbergs- og Þórhildardóttir varð önnur í prófkjörinu með 95 atkvæði í 1. – 2. sæti. Hún hafði hins vegar gefið það út fyrir prófkjörið að hún sæktist ekki eftir forustusæti því hún býr í Reykjavík en er uppalin í Neskaupstað. Hún óskaði því eftir að taka sæti neðar og verður í fimmta sæti.

Annað sætið fær Hrafndís Bára Einarsdóttir sem fékk 128 atkvæði í 1. – 3. sæti. Hans Jónsson varð fjórði í prófkjörinu með 147 atkvæði í 1. – 4. sæti. Rúnar Gunnarsson fékk 156 atkvæði í 1. – 5. sæti, Skúli Björnsson fékk 186 atkvæði í 1. – 6. sæti og loks Gunnar Ómarsson með 200 atkvæði í 1. – 7. sæti.

Prófkjörið hófst 3. mars og var fyrstu 10 dagana opið aðeins fyrir félaga í Norðausturkjördæmi. Þar sem tilskilinn atkvæðafjöldi, 100, fékkst ekki fyrir þann tíma framlengdist prófkjörið um viku auk þess sem opnað var fyrir atkvæði Pírata af öllu landinu. Tæplega 200 atkvæði bættust við á þeim tíma.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.