Dregur hratt úr hreyfingum í kringum skriðusárin

Dregið hefur hratt úr jarðhreyfingum í kringum sárin sem skriðurnar sem féllu á Seyðisfirði í síðustu viku skildu eftir sig. Svæðið fyrir Nautaklauf er enn metið viðkvæmt.

Þetta kemur fram í svörum Veðurstofunnar við spurningum Austurfréttar um ástandið í fjallinu ofan Seyðisfjarðar. Fyrirspurn Austurfréttar var í þremur liðum og varðaði í fyrsta lagi ástandið í kringum stóru skriðuna, einkum þær miklu sprungur sem sjást út frá henni.

Í öðru lagi svæðið frá Nautaklauf og út að Búðar á og í þriðja lagi Botnana sjálfa, einkum innsta hluta þeirra.

Svæðið í kringum stóru skriðuna er talið viðkvæmt en ekkert hefur enn hrunið úr skriðusárinu eða nágrenni þess. Mælipunktar, sem settir voru í brún þess, hafa hreyfst en dregið hefur hratt úr hreyfingunni.

„Gert er ráð fyrir skriðuföllum úr svæðinu í grennd við upptök stóru skriðunnar á næstu dögum og vikum meðan jarðefni þar sem komið er los á eru enn óstöðug,“ segir í svarinu.

Svæðið frá Nautaklauf og út að Búðará er einnig metið viðkvæmt en þar hefur heldur ekki verið frekar hrun. Þar hafa mælipunktar einnig hreyfst en sú hreyfing hefur minnkað. Ennfremur er þar líka gert ráð fyrir skriðuföllum við upptök skriðanna á næstu dögum og vikum þar sem jarðefni eru enn óstöðug.

Staðan á mælipunktunum í botnum er nákvæmlega sú sama og á fyrri svæðunum tveimur, en sprungur eru í Botnabrún. Hætta á skriðuföllum þar er þó talin minni nú en á fyrrnefndu svæðunum tveimur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.