„Dáist að biðlund Seyðfirðinga“

Íbúar húsa, sem enn eru á hættusvæði á Seyðisfirði, fengu í dag sumir að vitja húsa sinna og sækja nauðsynjar í þau, í fylgd björgunarsveita. Vettvangsstjóri segir það verk tafsamt en Seyðfirðinga vera þolinmóða.

„Við erum enn með rýmingar í gagni á nokkrum svæðum og gáfum út tilmæli um hvernig við umgöngumst þær. Það er oft tímafrekt og dagurinn hefur farið í það.

Þess vegna dáist ég að biðlund Seyðfirðinga sem sumir þurftu að bíða lengi eftir að sækja það sem þá vantaði, mögulega til að geta haldið jól annars staðar.

Sumir hafa jafnvel ekki komist heim enn. Það lýsir ótrúlegri biðlund og jafnlundargeði að þurfa að bíða mögulega til morguns,“ sagði Jens Hilmarsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi og vettvangsstjóri á íbúafundi um skriðuföllin og afleiðingar þeirra sem haldinn var í dag.

Samvinnan við bæjarbúa allan tíman góð

Jens, sem staðið hefur vaktina meira og minna frá því á þriðjudag, sagðist aldrei hafa lent í öðru eins vatnsveðri og leiddi svo til þess að stór skriða féll á utanverðan kaupstaðinn laust fyrir klukkan þrjú á föstudag.

Fyrstu skriðurnar, sem voru umtalsvert minni, féllu á bæinn á þriðjudag og í kjölfarið var hluti bæjarins rýmdur. „Það kemur mér ekki á óvart en samvinnan við bæjarbúa var góð þegar kom að því að rýma hús eða láta fólk vita að það væri á hættusvæði. Fólk tók okkur alltaf mjög vel og hafði fullan skilning á því sem við höfðum að segja.“

Hann sagði að stóra skriðan hefði „breytt öllu“ en í kjölfar hennar var bærinn rýmdur alveg. „Það þurfti ekkert að segja bæjarbúum það, það reiknuðu allir með að stefnan yrði tekin í þá átt sem hún var.

Að rýma heilt bæjarfélag á klukkutíma er með ólíkindum. Það hefði aldrei verið hægt nema því bæjarbúar voru með sitt á hreinu og fylgdu tilmælum okkar í hvívetna.“

Hann sagði að samvinnan hefði einnig gengið vel eftir að rýmingu á meirihluta bæjarins var aflétt í gær. „Við í vettvangsstjórninni viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að hlutirnir gangi sem best fyrir ykkur.“

Hjalti B. Axelsson, sem sæti á í aðgerðastjórn, sagði það hafa verið lán að enginn slasaðist í stóru skriðunni. Ávallt hefði verið unnið út frá því að tryggja öryggi fólks og það verði þannig áfram.

Margir bjóðast til að hjálpa

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Múlaþings, sagði að enn væri beðið eftir leyfi til að hefja hreinsun. Verktakar víða af landinu hefðu boðið fram bæði vélar og mannskap í það verk. Þá bærist reglulega boð um aðra aðstoð, svo sem húsnæði fyrir íbúa Seyðisfjarðar. Air Iceland Connect hefur boðið Seyðfirðingum afslátt og sálfræðiþjónustu má sækja hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, fjármálaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra koma austur á morgun. Þá sagði Björn að von væri á umhverfis- og auðlindamálaráðherra austur í janúar ásamt sérfræðingum í ofanflóðavörnum. Til skoðunar sé að halda þá annan íbúafund.

Björn sagðist dást að samheldni, yfirvegun og styrk Seyðfirðinga í áföllunum síðustu daga og hét þeim fullum stuðningi við þeirri endurbyggingu sem þörf er á auk þess að ráðast strax í aðgerðir til að tryggja samfélagið þar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.