Covid-smit í skipi í Mjóeyrarhöfn

Staðfest hefur verið að tíu af nítján manna áhöfn flutningaskipsins Taurus Confidence, sem lagðist að bryggju í Mjóeyrarhöfn í gær, eru með Covid-19 veiruna. Ekki er talin hætta á að smit dreifist út frá skipinu.

Í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands kemur fram að við komuna hafi skipstjórinn gert grein fyrir að sjö í áhöfninni væru veikir. Að fenginni lýsingu á einkennum og öðrum athugunum var ákveðið að taka sýni úr allri áhöfninni.

Sýnatökunni lauk í gærkvöldi. Í dag varð ljóst að tíu voru með veiruna.

Aðgerðastjórn almannavarnanefndar og umdæmislæknir sóttvarna á Austurlandi, í samvinnu við umboðsmann útgerðarinnar og skipstjórann, hafa gefið leiðbeiningar um sóttvarnaráðstafanir um borð.

Læknisfræðilegt eftirlit með skipverjunum verður unnið samkvæmt fyrirliggjandi vinnureglum þar um af Covid-deild Landspítala og HSA. Í tilkynningunni kemur fram að sýnataka og aðrar aðgerðir hafi gengið vel og aðgerðastjórnin telji ekki hættu á að smitið dreifi sér.

Hinir smituðu eru allir í einangrun um borð og aðrir í sóttkví. Þannig hefur verið frá komu skipsins til hafnar.

Taurus Confidence kom til Reyðarfjarðar upp úr klukkan fimm í gær eftir tveggja vikna siglingu frá Brasilíu en það kom þaðan með súrál fyrir álver Alcoa Fjarðaáls. Skipið er skráð á Marshall-eyjum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.