Byggðarmerki valið fyrir Múlaþing

Tillaga Grétu V. Guðmundsdóttur, hönnuðar, varð hlutskörpust í samkeppni um byggðarmerki fyrir hið nýja sveitarfélag Múlaþing. Alls bárust um 70 tillögur í keppnina.

Fimm manna dómnefnd fór í gegnum tillöguna og lagði síðan tillögu fyrir sveitarstjórn sem samþykkt var á fundi hennar á miðvikudag.

Í umsögn dómnefndar um merkið segir meðal annars: „Merkið er nútímalegt og klassískt í senn. Það er sett fram í fjórskiptum skildi með sterkum, einföldum, táknrænum línum.

Einn fjórðungur merkisins eru útlínur Múlakolls sem er fremsti hluti Þingmúla sem var einn helsti samkomu- og þingstaður Austfirðinga til forna og eru Múlasýslurnar nefndar eftir honum. Þar liggja og rætur nafns hins nýja sveitarfélags.

Annar fjórðungur táknmálsins er eins konar framtíðartákn hins óborna, endurnýjunar og hringrásar. Horft er til dagsbrúnar frá Héraðsflóa og Borgarfirði eystri í áttina þaðan sem sólin rís.

Þriðji fjórðungurinn er horn hreindýrsins sem tákna mikilfengleika og tign, greind og útsjónarsemi. Það undirstrikar sérstöðu svæðisins.

Það fjórða eru svo tindarnir, útverðirnir, hinir tignarlegu fjallgarðar Austurlands, útlínur Búlandstinds, gætu allt eins verið með góðum vilja hinn heilagi Strandatindur.

Þrátt fyrir skiptar skoðanir sem vörðuðu meira tilfinningar og smekk var nefndin ásátt um að hið útvalda merki gætum við öll staðið á bak við, og að það þjónaði tilgangi sínum á sterkan hátt. Það sýnir sameiningu og styrk.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.