Brasilíska afbrigðið staðfest í súrálsskipinu

Staðfest hefur verið að allir skipverjarnir sem greinst hafa með Covid-19 veiruna um borð í flutningaskipinu Taurus Confidence, sem er í Mjóeyrarhöfn, eru með brasilíska afbrigði veirunnar. Enginn er alvarlega veikur þar enn.

„Þeir sem greindust á Reyðarfirði voru allir með brasilíska afbrigðið. Áætlunin þar er mjög fín. Vonandi veikist enginn alvarlega þannig flytja þurfi menn milli landshluta. Mér skilst þetta gangi vel,“ sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, í viðtali við RÚV að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Tíu af nítján manna áhöfn súrálsskipsins greindist með veiruna eftir að skipið kom til Reyðarfjarðar seinni part fimmtudags.

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, segir að staðan um borð hafi ekkert breyst síðan á laugardag. Læknir og hjúkrunarfræðingur fóru um borð í gær til að hlúa að hinum veiku og taka sýni úr hinum níu. Þá var tekið blóðsýni úr áhafnarmeðlimum til að leita eftir mótefni við veirunni. Gert er ráð fyrir að tvíeykið fari aftur um borð í dag.

Utan þeirra er hafnsögumaður, sem lóðsaði skipið til hafnar, eini Íslendingurinn sem farið hefur um borð. Öll voru færð í sams konar hlíðarfatnað en þar sem hafnsögumaðurinn var óbólusettur þótti rétt að setja hann í sóttkví.

Í samtali við Vísi í gær skýrði hafnsögumaðurinn frá því að hann hefði hefði verið vel útbúinn og reynt að halda sig frá skipverjum, enda skipstjórinn svo veikur í brúnni að annar stýrimaður stjórnaði skipinu. Hann hefur gagnrýnt að tilkynning um veikindin hafi borist seint austur og eftir krókaleiðum.

Kristján Ólafur segir tilkynningu um veikindin hafa borist yfirvöldum eystra á laugardagsmorgunn en þá var von á skipinu inn um klukkan 14. Þá hafi viðbragðsferli farið í gang og öllum sóttvarnareglum verið fylgt til hins ýtrasta. Valið hefði verið um að fá skipið að bryggju, eða láta það varpa ankeri úti á Reyðarfirði. Því hefði fylgt talsverð vandkvæði síðar við að komast um borð. Fyrrnefndi kosturinn varð ofaná og var skipið komið að bryggju um klukkan 17.

Skipverjar eru í sóttkví og einangrun um borð. Ekki eru taldar líkur á að smitið breiðist út frá skipinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.