Bjartsýnn á að Tækniminjasafnið opni á ný

Tvær byggingar Tækniminjasafns Austurlands eru ónýtar og tvær aðrar mikið skemmdar eftir að stóru aurskriðuna sem féll á utanverðan Seyðisfjörð fyrir tíu dögum. Peningaskápur með ómetanlegum ljósmyndum frá Seyðisfirði fannst óskemmdur á Þorláksmessu.

„Eyðilegging sögufrægra bygginga og þeirra safnmuna sem geymdir voru í þeim er mikill skaði fyrir arfleifð Seyðisfjarðar. Hins vegar var hluti safnsins geymdur annars staðar og slapp því. Það gefur okkur von um að geta opnað safnið á ný,“ segir Zuhaitz Akizu, forstöðumaður Tækniminjasafns Austurlands.

Safnið varð fyrir miklum skaða í stóru skriðunni sem féll á Seyðisfjörð þann 18. desember síðastliðinn. Tvær byggingar þess þurrkuðust alveg út.

Annars vegar innsti hlutinn af Hafnargötu 38 og hins vegar Gamla skipasmíðastöðin sem byggð var árið 1897 og verið var að endurbæta. Þar voru skrifstofur, geymslur og prentverkstæði. „Bæði húsin eru grafin undir braki, aur og grjóti.“

Ljósmyndasafnið fannst óskemmt

Góðar fréttir bárust hins vegar á Þorláksmessu þegar hópur björgunarfólks fann peningaskáp sem varðveitti mikilvægustu skjöl safnsins auk 8000 gamalla ljósmynda frá Seyðisfirði. Lykilinn að skápnum tapaðist í flóðunum þannig opna þurfti skápinn með afli. Þá kom í ljós að ekkert vatn hafði komist inn í hann og gögnin því óskemmd.

Ytri hlutinn á Hafnargötu 38, þar sem Vélsmiðja Jóhanns Hanssonar frá 1906 varð ekki beint fyrir aurskriðunni en er umkringdur 8 metra vegg úr braki og aur. Zuhaitz segir stöðuna þar ekki líta vel út en þarfnist nánari skoðunar. Hluti hússins hýsir Renniverksvæðið, þar virðast innstu 10 metrarnir hafa skemmst og þakið farið af að hluta.

Mikið verk framundan

Útveggur Angró, sem geymir safnkost, skemmdist í skriðunni en honum var lokað til bráðabirgða fyrir jól. Eftir er að skoða ástand hússins og gripanna nánar. Tækniminjasafninu hefur verið boðin hjálp, meðal annars frá Þjóðminjasafninu, Bláa skildinum og Húsafriðunarnefnd við næstu skref.

„Þegar allt er talið er tap safnsins ólýsanleg, bæði fjárhagslega og sögulega, einkum þar sem þessar sögufrægu byggingar mynda hluta gömlu hafnarinnar á Seyðisfirði. Stór hluti safngripanna er að auki grafinn undir braki og aur.

Tækniminjasafn Austurland vill þakka bæði þeim einstaklingum og stofnunum sem hafa aðstoðað fyrstu dagana, sem og öllum þeim sem hafa boðið fram hjálp sína og stuðning.

Tiltektin og enduruppbyggingin er bara rétt að byrja. Við munum vinna að því að ná vopnum okkar eftir þennan atburð næstu mánuði, ef ekki ár, endurheimta gamla muni, hreinsa upp brakið og byggja upp aftur. Við eigum mikið verk fyrir höndum og erum þakklát fyrir að hafa svona sterkt samfélag að baki okkur," segir Zuhaitz.

Hægt er að styrkja safnið með að leggja inn á reikning: 0133-15-000450, kennitala: 440203-2560. Erlendis frá má millifæra í gegnum: IBAN IS95 0133 1500 0450 4402 0325 60 SWIFT (BIC): NBIIISRE

Staðan á svæði Tækniminjasafnsins fyrir viku. Mynd: Tækniminjasafn Austurlands


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.