Barði farinn til Rússlands

Togarinn Barði NK 120 yfirgaf Norðfjörð væntanlega í síðasta sinn í dag en skipið hefur verið selt til Múrmansk í Rússlandi.


Ný áhöfn hefur verið á Norðfirði síðustu daga til að taka við skipinu og fór af stað í dag. Fram kemur í frétt á vef Síldarvinnslunnar að ferðinni sé heitið til Kirkenes í Norður-Noregi þar sem vinnslu búnaði verið komið fyrir.

Fyrst verður farið á rækjuveiðar en síðar er gert ráð fyrir að skipið fiski víða í norðurhöfum.

Barði var smíðaður í Noregi fyrir Skipaklett á Reyðarfirði árið 1989 og hét upphaflega Snæfugl. Skipið fór til Síldarvinnslunnar við sameiningu útgerðanna árið 2001. Það hefur borið nafnið Barði frá haustinu 2002.

Það var lengst af gert út sem frysti- og ísfiskskip en í fyrra var allur vinnslubúnaður fjarlægður úr því og það síðan rekið sem ísfisktogari. Salan er liður í endurnýjun á ísfisktogaraflota Síldarvinnslunnar sem hyggst láta smíða fjóra nýja togara í stað þeirra sem nú eru í rekstri.

Barði í höfn í Neskaupstað. Mynd: Síldarvinnslan/Hákon Ernuson.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.