„Almennur vilji fyrir sameiningu Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar“

Á laugardag verður kosið um sameiningu Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps. Hákon Hansson, oddviti Breiðdalshrepps, segir að fjárhagsstaða hreppsins hafi frá síðustu sveitarstjórnarkosningum batnað til mikilla muna. Samkvæmt viðmiði sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gefið út skal það hlutfall ekki vera hærra en 150%.

„Í árslok 2016 var það 141% en þegar núverandi sveitarstjórn tók við var hlutfallið 169%. Ég tel því að það hafi náðst ágætur árangur. Ekki liggur fyrir enn hver skuldaprósentan var um síðastu áramót en ég tel að hún hafi lækkað enn frekar,“ segir Hákon.

„Það hefur verið talsverður árangur allt síðasta ár og tekjuafgangur af rekstri milli 20 og 30 milljónir króna sem einnig var árin þar á undan. Þetta hefur náðst með miklu utanumhaldi og reynt hefur verið að að hagræða eins og nokkurs hefur verið kostur en lítið farið í fjárfestingar eða framkvæmdir. Ekki verið dregið úr þjónustu við íbúa Breiðdalshrepps, enda ekki hægt annað. Hér búa í dag 183 manns.

Þessi árangur í rekstri sveitarfélagsins er meginástæða fyrir því að nú á að kjósa 24. mars nk. um sameiningu sveitarfélaganna Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar. Þær viðræður hófust í október í fyrra og í framhaldi var stofnuð samstarfsnefnd sem hóf starf í nóvember svo þetta hefur gengið mjög hratt og að mestu hnökralaust fyrir sig.

Skuldastaða Fjarðabyggðar er í dag um 124% og ég geri mér vonir um að hún verði svipuð í Breiðdalshreppi, eða 120 – 130%.

Það var eiginlega ekki hægt að starfrækja lengur svona fámennt sveitarfélag eins og hér í ljósi þeirra krafna sem gerðar eru í dag. Ég tel skynsamlegt að í dag sé sveitarfélag ekki með færri íbúa en 500 manns. Austfirðingar vilja margir hverjir að það sé markmiðið til lengri tíma að það verði hér eitt sveitarfélag frá frá Djúpavogshreppi í suðri norður til Vopnafjarðarhrepps. Þá yrði til liðlega 10.000 manna sveitarfélag sem væri afar hagstæð rekstrareining.

Nú er verið að framkvæma póstkönnun í 6 sveitarfélögum, þ.e. í öðrum en Breiðdalshreppi og Fjarðabyggð, og þar er einn kosturinn sem boðið er upp á að sameina sveitarfélög á starfssvæði SSA, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi.“

Hvernig hafa íbúar Breiðdalshrepps tekið því að kosið verði um sameiningu við Fjarðabyggð?

„Ég tel að það sé almennur vilji fyrir því að þetta verði gert. Auðvitað verður aldrei algjör samstaða um það, en ég tel að það verðir samþykkt með umtalsverðum meirihluta og þannig sé einnig vilji íbúa Fjarðabyggðar.Haldnir voru kynningarfundir í öllum byggðarlögunum í Fjarðabyggð og þar var almennt góð umræða og mikill stuðningur við sameiningu.“

Úr umfjöllun Austurlands um kosningar um sameiningu Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps, birt með leyfi ritstjóra Austurlands, Arnaldar Mána Finnssonar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.