Áhrifavaldur heimsækir Austurland

Carlo Petrini stofnandi Slow Food og formaður samtakanna frá upphafi, heimsækir Austurland á miðvikudaginn og boða Austfirskar Krásir og Austurbrú til hádegisfundar í Havarí á Karlsstöðum.



Í fréttatilkynningu segir að Carlo Petrini sé án efna einn áhrifamesti einstaklingur á sviði matvælaframleiðslu á heimsvísu. Hann hefur verið valinn einn af 100 mikilvægustu einstaklingum heims, hlaut nafnbótina European Hero hjá Time Magazine árið 2004 auk þess sem The Guardian útnefndi hann árið 2008 meðal 50 einstaklinga sem gætu bjargað heiminum.

Slow Food eru grasrótarsamtök sem stofnuð voru á Ítalíu á níunda áratugnum í þeirri viðleitni að snúa við þeirri óheillaþróun sem þá hafði hafist í landbúnaði og matvælaframleiðslu þar sem hraðvirkar aðferðir ógnuðu matarhefðum og gæðum matvæla um allan vestrænan heim.

Samtökin, undir forystu Carlo Petrini hafa náð eyrum almennings og ráðamanna víða um heim með verkefnum sínum og málflutningi sem hafa vakið athygli á mikilvægi staðbundinnar matvælaframleiðslu fyrir umhverfi og samfélag.

Verðlaunaður af Sameinuðu þjóðunum

Carlo Petrini hefur verið þátttakandi í umræðum um sjálfbærni matar og landbúnaðar hjá stofnunum Evrópusambandsins og hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) og árið 2016 var hann útnefndur sérstakur sendiherra FAO fyrir Evrópu í tengslum við alheimsátak stofnunarinnar, Ekkert hungur. Sameinuðu þjóðirnar tilnefndu hann einnig sem einn tveggja handhafa Champion of the Earth verðlaunanna árið 2013 fyrir „innblástur og aðgerðir“.

Fundurinn í Havarí stendur milli klukkan 12:00 og 14:00 og geta gestir fengið sér hádegisverð og smakkað á Austfirskum Krásum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.