Opnar eigin sálfræðistofu: Býður upp á samtöl í gegnum Skype

orri smarason nov15 0009 webSálfræðingurinn Orri Smárason hefur opnað eigin stofu í Neskaupstað. Hann hefur undanfarin ár starfað hjá HSA og sinnt börnum og unglingum en hyggst nú einnig bjóða upp á þjónustu fyrir fullorðna. Í boði eru bæði heimsóknir og samtöl í genum Skype samskipaforritið.

„Mér fannst vera kominn tími til að breyta til," segir Orri aðspurður um hví hann hafi ákveðið að opna eigin stofu.

Hann hefur undanfarin sjö ár stýrt ABG verkefninu sem miðar að því að byggja upp aðstoð við börn með geðrænan vanda.

„Það gekk að mörgu leyti vel en myndaðist mjög hratt mjög langur biðlisti. Honum fylgdi mikið álag sem erfitt var fyrir einn mann að standa undir. Á endanum verður maður svolítið þreyttur og fer að velta fyrir sér öðrum möguleikum."

Orri fékk árs leyfi frá störfum sínum hjá HSA og ætlar að nota þann tíma til að gera tilraun með stofuna. Nú stendur yfir leit að nýjum sálfræðingi til að sinna ABG verkefninu.

„Það væri draumastaða að inn kæmi ný og fersk manneskja með nýjar hugmyndir og kraft til að drífa verkefnið áfram."

Orri kveðst hafa hug á að sinna eldri skjólstæðingum en hjá HSA þótt reynsla hans sé fyrst og fremst með börn og unglinga.

„Það verður vel hægæt að leita til mín áfram en hluti af pælingunni með að opna eigin stofu var að færa mig meira yfir í fullorðinsgeirann."

Orri er eini sjálfstætt starfandi sálfræðingurinn á Austurlandi en auk hans eru tveir fastráðnir sálfræðingar hjá Skólaskrifstofu Austurlands og reglulega koma sálfræðingar til HSA.

Starfssvæði hans er því Austurland allt og jafnvel gott betur. Orri hyggst bjóða upp á samtöl í gegnum Skype sem þýðir að skjólstæðingarnir geta komið hvaðan sem er úr veröldinni.

„Við búum í strjálbýlu landi þar sem samgöngur eru misgóðar og sérhæfð heilbrigðisþjónusta oft ekki aðgengileg í dreifðari byggðum.

Strjálbýl lönd eins og Ástralía og Kanada eru mun lengra komin í fjarlækningum sem byggja á að veita þjónustuna í gegnum tækni. Hún þarf ekki að vera mikil eða flókin því með Skype geta menn talað saman augliti til auglitis."

Orri segir töluvert hafa verið rannsakað hvort sálfræðiþjónusta í gegnum fjarbúnað virki. „Niðurstöðurnar eru jákvæðar. Það á ekki að skipta öllu hvort þú ert á stofu eða heima. Þú átt að fá jafn góða þjónustu."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.