María Hjálmars: Ég sleppti ekki Clive og hann ekki mér

maria hjalmars okt15María Hjálmarsdóttir, verkefnisstjóri alþjóðaflugs hjá Austurbrú, segir væntanlegt áætlunarflug milli Egilsstaða og London Gatwick afrakstur stanslausar vinnu undanfarið ár. Hún segir það gæfu að flugið sé á vegum ferðaskrifstofu sem skili sér í þróun Austurlands sem áfangastaðar.

„Þetta hefur verið þrotlaus vinna síðasta árið, sérstaklega frá áramótum. Við höfum verið með í allri vinnunni við að skoða vélar, gefa ráð um svæðið, boða fólk á fundi, taka móti sölufólki Discover the World og breskum blaðamönnum og kynna þau svæðinu," segir María.

Eins og komið hefur fram þá er það breska ferðaskrifstofan Discover the World sem er að baki leigufluginu. María var kynnt fyrir eiganda stofunnar, Clive Stacey, á VestNorden ferðakaupstefnunni fyrir ári og þá byrjuðu hjólin að snúast. „Við fórum að ræða saman. Ég sleppti honum ekki og hann ekki mér."

Aðstæður eru réttar

Tvö ár eru síðan María byrjaði að starfa fyrir Austurbrú að því að auka nýtingu Egilsstaðaflugvallar. Hún gat leyft sér að fagna í vikunni því millilandaflugið fer af stað strax næsta sumar en hennar áætlanir gerðu ráð fyrir því á árinu 2017 eða 18.

„Ég held að aðstæður séu réttar í íslenskri ferðaþjónustu. Það hefur verið vilji á mörgum stöðum til að fjölga gáttum inn í landið."

Ýmsar leiðir voru skoðaðar áður en Clive kom inn í málið. „Við höfðum alls staðar fengið nei en fyrst og fremst talað við félög sem voru að fljúga til Keflavíkur og voru að þróa starfsemi sína þar. Við könnuðum að safna sjálf saman í leiguflug en það var flókið. Þá datt Clive upp í hendurnar á okkur."

Mikil vinna í áfangastaðnum

María segir samstarfið við bresku ferðaskrifstofuna skipta miklu máli. „Ég held að þetta sé réttasta lausnin fyrir okkur á Austurlandi eins og er. Þetta snýst ekki bara um að fljúga frá A til B heldur er áhersla á lögð á Austurland sem áfangastað.

Ef við hefðum fengið flugfélag inn þá væri það bara að hugsa um hvað það fengi marga farþega en hefði ekki lagt í þessa miklu þróunarvinnu á svæðinu."

Hún segir samstarfið við Clive undanfarið ár hafa fengið vel. „Við höfum náð að vinna þetta saman og honum aldrei fundist hann vera einn. Það hefur ekki verið erfitt að halda áhuga hans því hann hefur komið hingað nokkurn vegin mánaðarlega og kynnt hann fyrir fyrirtækjum og félögum.

Við höfum unnið allt saman, tekið þátt í að finna réttu vélarnar, ákveða verðið. Þetta hefur skipt máli því ákvörðunin er stór en við höfum alltaf sagt við okkur um að hún sé sú rétta. Við höfum haft marga sénsa á að segja að þetta sé ekki rétt en það hefur aldrei verið tilfinningin."

Nauðsynlegt að hafa bandamann á hinum endanum

Beint flug frá Egilsstöðum er ekki nýtt af nálinni en hefur ekki náð að lifa. „Þá var áherslan á íbúana hér sem voru að fljúga út en það var ekki tilbúin sölustofa hinu megin. Discover the World er með stórt netkerfi og þeirra viðskiptavinir vilja margir annað en suðvesturhornið. Ef við hefðum ekki samstarfsaðila hinu megin þá hefðum við getað gleymt þessu."

María ítrekar þó að flugið feli í sér ýmsa möguleika fyrir Austfirðinga. „Það eru margir möguleikar í flugi áfram frá Gatwick þannig það eykur lífsgæði okkar að fá beint flug."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.