Seyðfirðingar skora á Samkaup að breyta verslun staðarins í lágvöruverðsverslun: Erum þreytt á að keyra í Egilsstaði til að kaupa í matinn

seydisfjordur april2014 0006 webUm páskana var stofnuð síða á facebook sem ber heitið „Við viljum versla í heimabyggð“. Þar skora Seyðfirðingar á eigendur Nettó og Samkaupa Strax, að breyta Samkaupversluninni á Seyðisfirði í Nettó þar sem íbúar eru orðnir langþreyttir á því að þurfa að keyra á Egilsstaði í hverri viku til að kaupa í matinn.

„Síðan var stofnuð að kvöldi páskadags. Ég opnaði hana eftir að hafa verið að hafa spáð í þessu af mikilli alvöru frá áramótum. Það verður bara að láta reyna á hvort það sé möguleiki fyrir okkur að versla í heimabyggð. Þetta er það sem allir eru að hugsa um og allir eru að tala um svo það var bara spurning um hver væri til í að taka af skarið og opna fyrir þetta,“ segir Þórunn Eymundardóttir, stofnandi síðunnar í samtali við Austurfrétt.

Flestir versla í Bónus

Hvernig hafa viðbrögðin verið? „Alveg stjarnfræðilega góð. Til þess að geta talað um þetta af einhverri alvöru þurfum við að vita hvar fólkið í bænum stendur, og hvernig það hegðar sínum innkaupum, og eins hver yrði hagur búðarinnar. Hvers vegna ættu þeir að breyta núverandi fyrirkomulagi.

Til þess að finna út úr þessu gerðum við skoðanakönnun á síðunni okkar og dreifðum undirskriftalistum víðsvegar um Seyðisfjörð. Þátttakan er rosaleg. Á fyrstu tveimur sólarhringunum var meira en helmingur fjölskylda í bænum búnar að svara könnuninni en það eru um 140 fjölskyldur af 250 sem búa á Seyðisfirði. Niðurstaðan sýnir bersýnilega að fólk er þreytt á þessu ástandi og hefur verið lengi.

Niðurstaðan sannar einnig þá kenningu okkar að Seyðfirðingar versla ekki á Seyðisfirði. Þeir versla í Bónus á Egilsstöðum.Um 80% af okkar matarpeningum fer þangað.“

En hvað eruð þið í raun að biðja um? „Hugsunin er í raun sú og það vita það allir, að við viljum getað verslað í heimabyggð á viðráðanlegu verði. Við viljum og skorum á eigendur Nettó og Samkaupa Strax að Breyta Samkaup versluninni hér í Nettó. Samkaup strax er svona neyðarbúð fyrir okkur í dag. það hefur engin efni á því að versla í þar öllu jöfnu. Þeir eru teljandi á annarri hendi hér í bænum þeir sem beina öllum viðskiptum sínum þangað,“ segir Þórunn.

Kemur út á sléttu

Ef þið fáið þetta í gegn, hverju mundi þetta breyta? „Fjárhagslega kæmi þetta út á sléttu. Samkvæmt nýjustu verðkönnunum er 8% verðmunur á Bónus og Nettó, og þegar ég keyri bílnum mínum í Egilsstaði þá kostar það mig 3000 kr. Þannig að ef ég versla mat fyrir 25.000 kr í Bónus kostar hann mig í raun 28.000 kr. Ef ég svo verslaði í Nettó í heimabyggð mundi ég áfram að borga það sama nema ég eyðum bensínpeningnum í mat í staðinn fyrir bensín. Við erum tilbúin í þetta. En svo er bara svo margt annað sem kemur til.

Það er auðvitað galið að allir séu að keyra til Egilsstaða í öllum veðrum yfir heiðina einu sinni í viku allan veturinn. Þetta er því mikilvægt öryggisatriði fyrir okkur. Ef draumur okkar verður að veruleika þá veit ég að við á mínum heimili mundum byrja á því að skipta jeppanum okkar út fyrir minni bíl, og fleiri mundu gera slíkt hið sama.

Það yrði gríðarlegur tímasparnaður fyrir bæjarbúa að geta skroppið í búðina sína tvisvar í viku til að sækja það sem þarf í staðinn fyrir að taka dagsferð í Egilsstaði. Minni matur færi til spillist, minni slit yrði á bílum og eldsneytisnotkun mundi minka til muna."

Betra fyrir alla aðila

En búðin. Hvaða hag hefði hún af þessu? „Eigendur mundu fá um það bil 190 miljónir í veltu í staðinn fyrir 40 miljónir.“ Hvernig fáið þið það út ? „Nú, með könnuninni sem við gerðum á því hvernig fólk er að eyða peningunum sínum í matarkaup í dag, og hvernig þeir mundu nota þá ef þessi breyting yrði. Við erum þá að tala um 150% aukningu við búðina hérna,“ segir Jónína.

Eru vongóð

Eigið þið von á að það verði tekið vel í þetta? „Ég get ekki ímyndað mér annað. Mér finnst bara öll rök miða að því að þeir eigi að gera þetta. Ég get ekki séð betur en að þeir græða á þessu og fái miklu meiri tekju inn af búðinni ef úr yrði. Ekki nóg með það þeir væru að taka þessa peninga af Bónus en ekki Nettó á Egilsstöðum. Reksturinn fyrir þá yrði að öllu leyti betri. Vöruvelta yrði meiri, afskriftir minni, betri nýting á húsnæði. Þetta yrði að sjálfsögðu okkar aðalbúð sem allir myndu versla en ekki neyðarbúð eins og Samkaup Strax er í dag.“

Hafið þið sett ykkur í samband við eigendur verslananna ? „Já, Þeir fengu bréf frá okkur í gærkveldi þar sem við greinum frá niðurstöðum könnunarinnar og röksemdum. Í framhaldi af því á ég von á að það hefjist einhverjar umræður um að hér opni Nettó innan nokkra mánaða.

Vilja hjálpa samfélaginu

Ég vil samt taka það fram að við sem stöndum á bak við þetta erum ekki að halda einhverja kosningabaráttu fyrir okkar skoðanir og vilja. Heldur erum við bara að búa til gáttina og opna þessa umræðu til hjálpa samfélaginu að tala við eigendur búðarinnar um það sem allir vilja. Þetta hefur allt gerst mjög hratt og ég átti sannarlega ekki von á að þetta færi af stað með svona miklum skriþunga strax. Núna breytum við þessu,“ segir Þórunn að lokum

Hægt er að kynna sér málefni hópsins nánar HÉR.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.