Sveitasnakk: Frábært tækifæri fyrir Austfirðinga til að styðja við nýsköpun í heimabyggð

SveitasnakkSveitasnakk, snakk úr heimaræktuðum gulrófum, kemur á markað í vor ef allar vonir og væntingar um fjármögnun ganga eftir á næstu vikum.

Berfirðingarnir, bændurnir, tónlistarfólkið, Bulsumeistararnir og hjónakornin Svavar Pétur Eysteinsson sem er betur þekktur sem Prins Póló og Berglind Häsler ventu kvæði sínu í kross fyrir ári síðan og gerðust bændur. Markmiðið var að nálgast greinina með nýsköpun að leiðarljósi. Þau tóku við bænum Karlsstöðum í Djúpavogshreppi og hafa unnið að því að breyta fjósi í snakkverksmiðju.

Vantar herslumuninn

Nú sér fyrir endann á verkefninu en enn vantar svolítið upp á fjármögnun. Þau brugðu því á það ráð að hefja hópfjármögnun á Karolina Fund.

„Hér er allt á fullu og það gengur rosalega vel. Hér voru einmitt hjá okkur menn frá Rarik til að gera og græja því við þurfum meira rafmagn út af öllum tækjunum sem fara í verksmiðjuna. Húsið er bara að verða klárt, það vantar bara herslumuninn,“ segir Berglind í samtali við Austurfrétt

Ekki söfnun heldur viðskipti

Nú þegar hafa tæplega 70 öðlingar lagt í púkkið og er upphæðin komin upp í 2.600 evrur, en markmiðið er að safna 10 þúsund evrum.

Hvað ætla Berglind og Svavar að gera við peninginn sem kemur úr söfnuninni? „Þann pening ætlum við að nota til þess að klára þetta verkefni. V ið erum mjög langt komin en það vantar herslumuninn. Það á til dæmis eftir að setja inn tæki og tól, klósett og kaffistofu, leggja rafmagn innanhúss og sitthvað fleira.

Og það er rétt að taka það fram að þetta er ekki beint söfnun, heldur meira í ætt við hrein og klár viðskipti enda fær viðkomandi ýmislegt fyrir peninginn. Allt frá snakkpakka úr fyrstu lögun, upp í gistingu á gistihúsi Havarí á Karlsstöðum, tónleika með Prins Póló og Bulsuveislu. Það fer allt eftir því hversu háa uppæð fólk leggur til. Við erum í raun að selja ákveðna þjónustu um leið og við erum að fá fólk til að hjálpa okkur á lokametrunum.“

Beint af býli

Eruð þið búin að vera þróa snakkið lengi? „Já, um eitt og hálft ár. Það er svolítið síðan að uppskriftin var tilbúin en það hefur tekið sinn tíma að gera verksmiðjuna klára. Við ætlum svo að rækta okkur eigin rófur svo þetta verður algerlega heimaræktað og beint af býli.

Er sveitasnakk gott? „Þeir sem hafa smakkað eru mjög hrifnir. Við bökum rófurnar í staðinn fyrir að djúpsteikja þær og svo kryddum við þær með ferskum chilli og hvítlauk. Þetta er alveg eins og snakk nema miklu hollara og ekki með svona mikilli fitu. Fólk er sjúkt í þetta.“

Nýsköpun í heimabyggð

En hvernig getur fólk lagt hönd á plóg? „Það er bara að fara inn á karolinafund og kynna sér þetta og leggja svo í púkkið. Þetta er frábært tækifæri fyrir Austfirðinga til að styðja við nýsköpun í heimabyggð og að taka þátt í þessu ævintýri,“ segir Berglind að lokum.

Smelltu hér til að fara inn á Karolinafund til að taka þátt í ævintýrinu.

Fylgstu með framvindu mála á hvari.is og á facbooksíðu Havarí.

Mynd 1: Sveitasnakk. 
Mynd 2: Karlsstaðir í Berufirði. Snakkverksmiðjan er í húsinu lengst til vinstri. 
Mynd 3: Bændurnir Svavar og Berglind á Karlsstöðum.
sveitasnakk Berufjordur
sveitasnakk hjonakornin

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.