Sigmundur Davíð: Náttúruleg þróun ef störf flytjast í borgina en valdníðsla ef þau fara í hina áttina

xb egs feb15 0004 webSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir að ekki sé hægt að sitja undir allt annarri umræðu eftir því hvort störf flytjist út á land eða til borgarinnar. Stundum þurfi stórtækar aðgerðir til að ná árangri og vill að íbúar landsbyggðarinnar styðji við þær í umræðunni.

Þetta kom fram í máli Sigmundar Davíðs á opnum fundi Framsóknarmanna á Egilsstöðum fyrir skemmstu þar sagðist hann umræðuna í kringum flutning Fiskistofu hafa verið „með ólíkindum.

Það virðist náttúruleg þróun þegar störf flytjast frá landsbyggðinni en þegar þau fara í hina áttina kallast það nauðungaflutningar og valdníðsla og menn þurfa áfallahjálp og svo framvegis.

Varla er sagt frá því þegar störf eru flutt frá landsbyggðinni en ef þau fara í hina áttina er bein útsending frá kaffistofu starfsmanna.

Það má ekki láta þessa hugsun viðgangast þannig hún verði að sannindum. Þess vegna er mikilvægt að fá mótvægi í umræðuna og að þingmenn, íbúar og fyrirtæki togi í hina áttina.

Ég hef líka efasemdir um það þegar menn segjast styðja að störf flytjist út á land en það verði að gerast á náttúrulegri hátt. Vissulega getur það stundum virkað en það er annmörkum háð.

Það þarf kjarna sem hægt er að hengja utan á þess vegna þurfa stórir kjarnar að dreifast. Það þarf skjólbelti til að sprotarnir geti dafnað.

Þess vegna þurfa stjórnmálamenn að stíga stór skref þótt það verði umdeilt þótt menn reyni að vinna málin í sameiningu og það þarf stuðning heimamanna."

Hann sagði ríkisstjórnina hafa náð „meiri árangur en vænst hefði á stuttum tíma" og benti á lítið atvinnuleysi, lága verðbólgu og mikinn hagvöxt. Áfram þyrfti þó að halda. Lífeyrir hefði ekki fylgst verðlagsþróun síðustu ár og losa þurfi um gjaldeyrishöftin en hann boðaði að hrint yrði í framkvæmd á næstu vikum áætlunum sem unnið hafi verið að.

Þrátt fyrir þetta hefur fylgi flokksins helmingast í skoðanakönnunum miðað við það sem hann fékk í þingkosningunum 2013. Formaðurinn virðist samt ekki missa svefn yfir því.

„Framsóknarflokkurinn er ekki tískuflokkur og mönnum gengur betur þegar kemur að því í kosningum að meta hvað raunverulega hefur verið gert. Það verður líka nú.

Þegar ég var fjölmiðlamaður var ég hissa á stjórnmálamönnum sem töluðu bara um skoðanakannanir og velti fyrir mér hvort þeir hefðu ekkert til að trúa á, engar hugsjónir og einsetti mér þá að hlusta ekki á kannanir.

Þetta hefur verið saga Framsóknarflokksins frá því að kannanir hófust. Það eina sem kannanir tveimur árum fyrir kosningar sýna er hvernig kosningarnar fara ekki."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.