Katrín Júlíusdóttir: Svíður að sjá þá stefnu sem samfélagið er að taka

samfylking 10022015 0011 webÞingmenn Samfylkingarinnar segja erfitt að horfa upp á þá stefnu ríkisstjórnarinnar að lækka skatta á tekjuhærri hópa en auka gjöld á tekjulægri hópa. Íslenskt samfélag stefni aftur inn í það andrúmsloft sem ríkti fyrir hrunið 2008.

„Mér svíður að sjá þá stefnu sem samfélagið okkar er aftur að taka. Við stefnum hraðbyri inn í sambærilegt samfélag og í aðdraganda hrunsins þar sem sérhagsmunir eru teknir framar almenningshagsmunum," sagði Katrín Júlíusdóttir, varaformaður flokksins, á opnum fundi á Egilsstöðum fyrir skemmstu.

„Við viljum koma okkur út úr þeirri aðstöðu að fólk geti grætt á að komast í einhverja aðstöðu, að skapaðar séu aðstæður fyrir fáa til að hagnast gríðarlega."

Undir það tók Oddný G. Harðardóttir. „Það er erfitt að sætta sig við að hafa ekki fengið umboð þegar maður horfir upp á það sem er að gerast núna þegar verið er að nota árangur jafnarðamanna í þágu þeirra ríku," sagði hún.

„Þetta er ríkisstjórn ríka fólksins. Öll skrefin eru tekin í þá átt."

Hún nefndi aukna greiðsluþátttöku sjúklinga og breytingar á framhaldsskólum. „Menntastefnan birtist í fjárlagafrumvarpinu en hafði hvergi verið rædd."

Guðbjartur Hannesson gagnrýndi einnig breytingar á skólakerfinu. „Þarna hækka menn gjöldin en stæra sig svo af því að vera lækka skatta."

Hann sagðist ekki hafa ímyndað sér að farið yrði aftur í „sama farið, sömu kenningar um uppbyggingu samfélagsins, aftur í sérhagsmunina. Líkt og fyrir hrun eru peningalegir mælikvarðar settir á allt."

Hann gagnrýndi sérstaklega hugmyndir ríkisstjórnarinnar um flutning Fiskistofu til Akureyrar og sendi Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, pillu um leið.

„Þær eru kjaftshögg fyrir okkur sem erum að berjast fyrir byggðamálum. Þetta er illa undirbúið og ekki byggðastefna.

Ég hefði getað skrifað upp á stefnuræðu forsætisráðherra en það er ekkert verið að framkvæma hana. Hann kallar eftir rökræðum, kastar inn bombum og er svo farinn en rökræðir ekkert við þann sem er til staðar."

Katrín gerði málefni Fiskistofu einnig að umtalsefni. „Við getum ekki haldið áfram að karpa um hversu margir kallar eru færðir til á milli stofnana á sama tíma og opinber störf leka annars staðar í bæinn. Það vantar heildarsýnina."

Hún sagðist einnig vonast til að aftur kæmist skriður á samgöngumál hjá nýjum innanríkisráðherra. Lekamálið hefði heltekið ráðuneytið síðustu mánuði.

„Það vantaði pólitíska stýringu í ráðuneytið. Stefnumótandi mál voru ekki í forgangi meðan stormurinn gekk yfir."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.