Nýr kurlari í gagnið á Héraði: Sex sinnum öflugri en sá gamli

Kurlari hallormsstadurNýtt tæki til að kurla trjávið var gangsett í fyrsta sinn á Hallormsstað síðastliðinn föstudag. Tækið er margfalt öflugra en eldri kurlari sem þar hefur verið í notkun.

Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Hallormsstað, segir að nýi kurlarinn framleiði líka mun betra og jafnara kurl. Engir langir kvistir eða flísar séu lengur í kurlinu og því verði mun þægilegra að nota það, ekki síst í kyndistöð Skógarorku á Hallormsstað, sem mun fá allt sitt kurl úr nýja kurlaranum.

Skógrækt ríkisins og Héraðs- og Austurlandsskógar hafa þegar lagt fram fé til kaupa á tækinu en í ráði er að Búnaðarfélag Fljótsdalshrepps og Félag skógarbænda á Austurlandi leggi líka í púkkið og hugsanlega einnig Sveinn Ingimarsson verktaki. Hann hefur séð um að kurla fyrir Skógarorku og heldur því áfram með nýju vélinni. Reynslan af fyrstu kurluninni á föstudag sýndi að einungis tók hálftíma að fylla einn gám af kurli en með gamla búnaðinum tók sama verk þrjá klukkutíma. Nýja vélin er samkvæmt því sex sinnum öflugri en gömlu tækin.

Vélin er þýsk af gerðinni Heizomat Heizohack og öll hin vandaðasta. Hún rífur í sig marga boli og trjágreinar í einu og hægt er að skipta um grindur eða síur í henni til að fá mismunandi gróft kurl. Talsvert hagræði er að því líka að nú gengur aðeins ein olíuknúin vél þegar kurlað er en ekki tvær eins og áður var. Hingað til hefur þurft eina vél til að knýja kurlarann og aðra til að mata hann á trjábolum. Á nýja kurlaranum er hins vegar áfastur krani og því dugir ein dráttarvél til að knýja allt saman. Þetta sparar talsverða olíu og væntanlega sparast einnig olía vegna þess hversu fljótvirkur nýi kurlarinn er. Auk þess er nýja tækinu sjálfvirkur búnaður sem stýrir því eftir þörfum hversu mikla orku hann notar.

Hlynur Gauti Sigurðsson hjá Héraðs- og Austurlandsskógum gerði myndband sem sýnir kurlarann í verki þegar hann var prufukeyrður í fyrsta sinn á föstudaginn var. 



Það var Skógrækt ríkisins sem greindi frá
 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.