Tinna Rut Austfirðingur ársins 2014: Viðurkenningin hjálpar mér að halda mínu striki

gg tinna austari2014 webLesendur Austurfréttar völdu Tinnu Rut Guðmundsdóttur frá Reyðarfirði sem Austfirðing ársins 2014. Hún sagði í Austurglugganum í lok nóvember frá áralangri baráttu sinni við átröskun. Hún segir viðurkenninguna mikinn heiður sem hjálpi henni við að halda réttri stefnu.

„Þetta er mér mikil viðurkenning. Hún gefur mér færi á að halda mínu striki og koma í veg fyrir að ég fari út í eitthvað rugl aftur," sagði Tinna í samtali við Austurfrétt. Hún tók við viðurkenningu frá Austurfrétt og gjafabréf frá Hótel Hallormsstað/Valaskjálf á heimili sínu í Grafarvogi á föstudagskvöld.

Tinna Rut er 29 ára gömul og uppalin á Reyðarfirði. Hún hefur síðan í menntaskóla barist við átröskun. Hún skrásetti baráttusögu sína til birtingar í Austurglugganum í nóvember.

Tæplega 1.900 atkvæði bárust í kjörinu og sigraði Tinna með töluverðum yfirburðum en hún fékk 45,1% atkvæða. Þetta er í þriðja sinn sem Austurfrétt veitir viðurkenninguna. Fara þurfti yfir atkvæðin eftir árás tölvuforrits en allt var rétt að lokum.

Það að skrásetja sögu sína var hluti af hennar persónulega uppgjöri en einnig leið til að hjálpa öðrum. „Það hafa alltaf sótt á mig hugsanir um hvað ég hafi gert fjölskyldu minni, til dæmis þurftu mamma og pabbi að flytja í sundur um tíma til að hjálpa mér, og hvað ég hafði eytt lífi mínu í mikla vitleysu.

Ég ákvað því að prófa að skrifa frá mér þráhyggjuna að vera alltaf að hugsa um þetta, bæði til að hjálpa mér og ef þetta gæti mögulega hjálpað einhverjum öðrum."

Tinna og fjölskylda hennar hafa fengið umtalsverð viðbrögð við greininni. „Það höfðu þrjár stelpur samband við mig sem höfðu verið inni á geðdeild. Ein þeirra sagði greinina hafa verið akkúrat það sem hún þurfti á að halda núna, hún hefði gefið henni von. Síðan hefur ótrúlegasta fólk haft samband í gegnum Facebook og fólk hefur komið að máli um greinina við unnusta minn (Hall Kristján Ásgeirsson)."

Foreldrar hennar, Guðmundur Bjarnason og Ásta Jóhanna Einarsdóttir, hafa einnig fengið töluverð viðbrögð við greininni. Tinna segist þeim afar þakklát fyrir allan stuðninginn.

„Þau eiga mikinn þátt í þessari viðurkenningu. Ég væri ekki í þessu viðtali ef ég hefði ekki fengið þeirra stuðning og fólk má hafa samband við þau ef það þarf. Þau er líka tilbúin til að hjálpa."

Hún segist finna fyrir létti og auknum skilningi eftir að greinin birtist. „Já, fólk skildi ekki hvað þetta var, hélt bara að ég gæti ekki borðað. Fólk skilur mig betur núna, til dæmis Hallur, þótt við séum búin að vera lengi saman.

Mér líður líka betur og hlakka til að vakna á hverjum morgni. Að fá þessa viðurkenningu gerir þetta enn betra. Nú veit ég að fólk hefur trú á mér þannig ég hlýt að hafa það sjálf líka."

tinna austari2014 web

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.