Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga óskaði eftir skýringum á tapi Fljótsdalshéraðs

baejarskrifstofur egilsstodum 3Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga óskaði eftir skýringum á því að sveitarfélagið Fljótsdalshérað tapaði tæpum 60 milljónum króna á síðasta ári á sama tíma og gert var ráð fyrir hagnaði. Nefndin virðist sátt við þær skýringar sem hún fékk.

Eins og Austurfrétt greindi frá fyrr í vikunni fékk Fljótsdalshreppur einnig bréf frá nefndinni en samkvæmt sveitastjórnarlögum skulu heildarútgjöld á 3ja ára tímabili ekki hærri en sem nemur samanlögðum reglulegum tekjum sveitarfélags.

Í bréfi nefndarinnar kemur fram að hún álíti að Fljótsdalshérað standist það viðmið en í ljósi þess að 57 milljóna tap hafi orðið á rekstri samstæðunnar árið 2013 þegar áætlanir gerðu ráð fyrir sjö milljóna hagnaði var óskað eftir skýringum.

Í svarbréfi Fljótsdalshéraðs segir að þrjár meginskýringar hafi verið á frávikinu. Í fyrsta lagi hafi tekjuskattseign hjá Hitaveitu Egilsstaða og Fella upp á 67 milljónir verið bakfærð.

Í öðru lagi hafi einn starfsmaður nýtt sér rétt sinn til að hætta samkvæmt 95 ára reglu. Það hafi hækkað lífeyrisskuldbindingar sveitarfélagsins um 25 millur. Í þriðja lagi hafi samningur á leigu á landi undir byggð í Fellabæ hækkað.

Þá biður nefndin einnig um útkomuspá fyrir árið í ár en gert er ráð fyrir 96 milljóna afgangi. Þar munar um minni verðbólgu sem þýðir að fjármagnsliðir eru lægri.

Þar kemur einnig fram að vegna tveggja mánaða seinkunn á byggingu hjúkrunarheimilis á Egilsstöðum flytjist 200 milljóna króna útgjöld yfir á næsta ár.

Nefndin virðist sætta sig við skýringarnar því í nýjasta bréfi hennar kemur fram að eftir að hafa yfirfarið gögnin óski hún ekki eftir frekari upplýsingum. Engum tilmælum er heldur beint til sveitarfélagsins.

Fljótsdalshérað hefur um árabil verið undir eftirliti vegna skulda en gert er ráð fyrir að það nái svokölluðu 150% viðmiði árið 2019. 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.