Grunaður um að hafa stungið sektunum í vasann: Umfangsmikil rannsókn á mögulegum brotum lögreglumanns

logreglanLögreglumanni á Egilsstöðum var í lok ágúst vikið frá störfum vegna gruns um að hann hefði stungið sektum fyrir umferðarlagabrot í vasann. Yfirlögregluþjónn á Eskifirði, sem fer með rannsókn málsins, segir rannsóknina umfangsmikla.

„Það er alltaf alvarlegt þegar lögreglumenn eru grunaðir um brot í starfi," segir Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn á Eskifirði en lögreglan þar hefur verið með málið til rannsóknar frá því í lok ágúst.

Í samtali við Austurfrétt í morgun sagðist Jónas lítið getað tjáð sig um málið, til dæmis hvers eðlis brotin væru, en staðfesti að mikil vinna fælist í að rannsaka málið.

Samkvæmt heimildum Austurfréttar er lögreglumaðurinn grunaður um að hafa stöðvað ferðamenn fyrir umferðarlagabrot og stungið sektunum í eigin vasa.

Grunur vaknaði um brotin í lok ágúst og var lögreglumaðurinn þá leystur frá störfum. Brotið var tilkynnt til ríkissaksóknara sem fól lögreglustjóranum á Eskifirði meðferð málsins.

Í umfjöllun Vísis um málið segir að skoða þurfi upptökur úr lögreglubílum langt aftur í tíma og hafa uppi á ferðamönnum sem greitt hafi sektirnar.

Þar segir að margir erlendir ferðamenn hafi aðeins tök á að greiða sektir sínar í reiðufé á sama tíma og lögregluembættin beini því sum til lögreglumanna að taka ekki við sektargreiðslum í reiðufé.

Vandinn snúist þá meðal annars um að ljúka málinu á staðnum og snúa sér að næsta verkefni eða sleppa ökumanninum.

Í hádegisfréttum RÚV segir að grunur hafi vaknað um brotin þegar ábending hafi borist til ríkislögreglustjóra frá ferðamanni sem greitt hafði sekt til lögreglumannsins með þessum hætti. Þar er því haldið fram að brotin hafi átt sér stað allt síðasta sumar og jafnvel lengur.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.