Jón Björn nýr formaður Austurbrúar: Verkefnin eru næg

austurbru stjorn sept14Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð, var í dag kjörinn nýr formaður stjórnar Austurbrúar að loknum framhaldsaðalfundi stofnunarinnar. Fyrsta verk stjórnarinnar var að ráða Jónu Árnýju Þórðardóttur áfram sem framkvæmdastjóra til áramóta.

„Við tökum við mikilli vinnu frá starfsháttanefnd, framkvæmdastjóra og fyrri stjórn og þurfum að setja okkur inn í það. Við munum funda aftur fljótlega því verkefnin eru næg," sagði Jón Björn í samtali við Austurfrétt eftir fundinn í dag.

Auk hans sitja í nefndinni þau Karl Lauritzson og Þórunn Egilsdóttir af vettvangi sveitarstjórnarmála og Berglind Häsler, Sigrún Birna Björnsdóttir, Sveinn Jónsson og Sæunn Stefánsdóttir fyrir hönd atvinnulífs- menntunar og menningar. Varamenn eru Páll Baldursson og Adolf Guðmundsson.

Aðalfundi Austurbrúar var frestað í vor og starfsháttanefnd falið að vinna tillögur um breytt skipulag og starfsemi stofnunarinnar. Vinna hennar var fest í gildi en stærstu breytingarnar eru að tekið verður upp verkefnamiðað skipulag og skarpari skil sett á milli starfsemi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og Austurbrúar.

Talsverð vandræði voru innan stofnunarinnar fyrir aðalfundinn í vor auk þess sem fjárhagsstaðan var erfið. Jón Björn segir fráfarandi stjórn og yfirstjórn hafa unnið mikla vinnu í sumar til að bæta úr.

„Okkar stóra verkefni verður að fara ítarlega yfir stöðuna og finna leiðir til að koma Austurbrú á rétt ról.

Austurbrú er mjög gott verkefni, framtíðarverkefni og til hennar er horft innan stjórnkerfisins. Við ætlum að halda áfram að byggja ofaná það og styrkja stoðirnar.

Fjárhagsstaðan er mjög erfið, líkt og greint var frá á fundinum í vor. Hún hefur ekki batnað en menn hafa greint stöðu þeirra samninga sem eru við stofnunina.

Starfslega hefur Austurbrú tekið miklum framförum á þessu sumri. Það hefur mikið áunnist og góður gangur verið í starfseminni."

Jóna Árný tók við stöðu framkvæmdastjóra í byrjun maí og var ráðin fram að framhaldsaðalfundinum. Á fundi sínum í dag ákvað stjórnin að ráða hana áfram, „að minnsta kosti til áramóta á meðan við náum utan um verkefnin."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.