Engin samræmd rýmingaráætlun til fyrir Austurland vegna eldgoss

eldgos 08092014 0139 unninAustfirskir sveitarstjórnarmenn telja þörf á að unnin verði sameiginleg viðbragðsáætlun fyrir allan fjórðunginn vegna mögulegs eldgoss í Bárðarbungu. Formaður Sambands sveitarfélaga (SSA) segir þörf á að hafa upplýsingarnar aðgengilegar á einum stað.

„Það er ekki til formleg samræmd rýmingaráætlun fyrir svæðið allt. Það flækir málið að það eru starfandi tvær almannavarnarnefndir og því töldu menn rétt að hnykkja á þessu," segir Sigrún Blöndal, nýkjörinn formaður SSA.

Á aðalfundi sambandsins um síðustu helgi var því beint til nýrrar stjórnar að unnin verði sameiginleg viðbragðsáætlun fyrir svæðið „að minnsta kosti frá Vopnafirði til Djúpavogs" segir Sigrún en það er starfssvæði SSA.

Á svæðinu eru starfandi tvær almannavarnanefndir. Sýslumaðurinn á Seyðisfirði leiðir aðra þeirra en sýslumaðurinn á Eskifirði hina.

„Ég veit að báðar nefndirnar hafa fundað í vikunni þannig að menn eru meðvitaðir um að kallað hefur verið eftir þessu."

Eldsumbrotin voru til umræðu á fundinum en Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur ræddi þar mögulegar afleiðingar eldgoss í Bárðarbungu. Hlaup í Jökulsá á Fjöllum myndi rjúfa vegasamgöngur til norðurs og væntanlega hafa umtalsverð áhrif á fjarskipti og raforkuflutning.

Einna mestar áhyggjur á Austurlandi hafa menn þó af öskufalli sem meðal annars gæti mengað neysluvatn þar sem Austfirðingar reiða sig á opin vatnsból. Þá hafa menn áhyggjur af gasmengun nái hún yfir lengri tímabil en til þessa.

Hún segir almannavarnanefndirnar hafa unnið mikið starf, þær hafi fundað tvisvar í viku og forstöðumönnum lykilstofnana verið gert ljóst hvað þeir eigi að gera. Upp á vanti hins vegar að upplýsingunum sé safnað saman á einn stað. „Við erum að kalla eftir að nefndirnar vinni saman."

Í ályktun fundarins segir að það sé brýnt öryggismál og varði almannaheill á Austurlandi að slík viðbragðsáætlun liggi fyrir. Þá verði stjórnvöld að tryggja fjármagn til rannsókna og vöktunar á meðan „þetta ástand varir."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.