Undirmannað á sjúkrahúsinu á Seyðisfirði: Ekki sparnaðarráðstöfun að fara með þvott í Egilsstaði

seydisfjordur april2014 0006 webStarfsmenn vantar í þvottahús sjúkrahússins á Seyðisfirði auk þess þvottavélarnar þar eru að verða úr sér gengnar. Því er farið með þvottinn í Egilsstaði og hann þveginn þar. Svæðisstjóri hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands segir þetta ekki gert í sparnaðarskyni.

„Þetta er ekki niðurskurðaraðgerð. Staða þvottavélanna á Seyðisfirði er sú að þær krefjast mikils viðhalds og endurnýjunar sem ekki er til fjármagn fyrir.

Þá vorum við með tvo starfsmenn í þvottahúsinu en annar þeirra hætti og okkur hefur gengið illa að fá til að vinna þar," segir Ragnar Sigurðsson, svæðisstjóri hjá HSA.

„Starfsmaðurinn sem við höfum er bæði duglegur og kraftmikill en með þessi vandamál ákváðum við að létta á honum og keyra þvottinn í Egilsstaði."

Ragnar segir að sá þvottur sem mest liggi á sé þveginn á Seyðisfirði. Staðan sé óþægileg en engin leið hafi myndast.

Hann segir að auglýst hafi verið eftir starfsfólki í þjónustudeild, það er ræstingu og þvottahús, en ekki fengist. „Ef það fengist starfsfólk þá myndum við þvo meira á Seyðisfirði."

Hann segir akstrinum með þvottinn hagað þannig að nýttar séu ferðir sem fyrir eru og því kostnaðurinn óverulegur, að minnsta kosti með tilliti til kostnaðar við endurnýjun vélanna.

Víðar er þó undirmannað á Seyðisfirði heldur en í þjónustudeildinni því leit hefur lengi staðið yfir að hjúkrunarfræðingi á sjúkrahúsið en enginn fundist.

„Það er mikið álag á þeim hjúkrunarfræðingum sem eru og það sárvantar slíkan starfskraft. Við höfum auglýst og erum að leita markvisst þannig að vonandi verður þetta ekki viðvarandi ástand."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.