Bárðarbunga: Fundur með hagsmunaaðilum fyrirhugaður á Egilsstöðum á morgun

bardarbunga kortAlmannavarnardeild ríkislögreglustjóra stefnir á að funda með hagsmunaaðilum á Austurlandi á Egilsstöðum í fyrramálið út af mögulegu eldgosi í Bárðarbungu.

Á fundinum munu fulltrúar almannavarna, lögreglunnar og vísindamenn gera ráð fyrir stöðunni og fara yfir aðgerðir. Fundinn sækja viðbragðsaðilar og hagsmunaaðilar svo sem fulltrúar sveitarfélaga, bænda og heilbrigðisstofnana.

Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-Sif flaug yfir svæðið með vísindamenn í gær og lenti til að taka eldsneyti á Egilsstöðum rétt fyrir klukkan fimm í gær. Teknar voru myndir af jarðskjálftasvæðinu en einnig svipast um eftir fólki norðan Dyngjujökuls en svæðið var rýmt í fyrrakvöld.

Rýming svæðisins gekk vel og er ekki vitað um mannaferðir við Kverkfjöll, Dreka og Herðubreiðarlindir. Rýmingu var fylgt eftir í gær og farið í frekari eftirgrennslan inn á lokaða svæðið.

Þá voru vísindamenn frá Veðurstofunni voru á ferð á jöklinum í gær, annars vegar við Kverkfjöll og hins vegar í nánd við Brúarárjökul. Tilgangur ferðarinnar var að koma fyrir jarðskjálftamælum og GPS stöðvum.

Þá sinna björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar hálendisvakt og passa upp á að lokanir séu virtar. Félagar úr Ísólfi á Seyðisfirði sjá um gæslu um þessar mundir.

Skjálftavirknin í nótt hefur verið mikil og stöðug eins og undanfarið, langflestir skjálftarnir mælast við innskotið undir Dyngjujökli á sömu slóðum og í gær og virðast ekki hafa færst norðar í nótt. Flestir voru á 8-11 km dýpi en nokkrir (undir morgun) voru á um 5-6 km dýpi. Tveir skjálftar að stærð 3,0 urðu seint í gærkvöldi og nótt.

Eftirfarandi hálendisvegir eru lokaðir í samráði við Almannavarnir: F- 910 Austurleið (Dyngjufjallaleið), F903 Hvannalindavegur, F902 Kverkfjallaleið, F905 Arnardalsleið og F88 Öskjuleið.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.